Enski boltinn

Solskjær tók met af Sir Alex sem hann hjálpaði sjálfur við að setja á sínum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær 2002 og 2019.
Ole Gunnar Solskjær 2002 og 2019. Samsett mynd/Getty
Ole Gunnar Solskjær byrjar svo vel með Manchester United liðið í ensku úrvalsdeildinni að hann er þegar byrjaður að taka metin af gamla læriföður sínum.

Solskjær setti nýtt met hjá Manchester United í gærkvöldi þegar hann stýrði liðinu til sigurs í áttunda útileiknum í röð.

Solskjær hélt upp á 46 ára afmælið sitt á þriðjudaginn og fékk síðan flotta afmælisgjöf frá leikmönnum sínum í gær.





Manchester United vann þá 3-1 útisigur á Crystal Palace þar sem Romelu Lukaku skoraði tvisvar og Ashley Young innsiglaði síðan sigurinn. Það má sjá mörkin úr leiknum hér fyrir neðan.

Sir Alex Ferguson var knattspyrnustjóri Manchester United frá 1986 til 2013 og vann 38 titla með félaginu þar af ensku úrvalsdeildina þrettán sinnum.

Hans lengsta sigurganga í útileikjum var hins vegar „bara“ sjö útisigrar í röð. Því náði hann í tvígang, fyrst 1993 og svo aftur 2002.

Í sjö leikja sigurgöngunni árið 2002 þá skoraði Ole Gunnar Solskjær meira að segja sex mörk í þessum sjö útileikjum.

Mörkin í sjö leikja útileikjasigurgöngu Manchester United 2002:

5-3 sigur á West Ham í deild (Beckham 2, Butt, Scholes, Solskjær)

3-0 sigur á Boavista í Meistaradeild (Blanc, Solskjær, Beckham)

4-3 sigur á Leeds í deild (Scholes, Solskjær 2, Giggs)

2-0 sigur á Deportivo La Coruna í Meistaradeild (Beckham, Van Nistelrooy)

1-0 sigur á Leicester í deild (Solskjær)

3-0 sigur á Chelsea í deild (Scholes, Van Nistelrooy, Solskjær)

1-0 sigur á Ipswich Town í deild (Van Nistelrooy)

Samtals mörk í sigurgöngunni 2002: Ole Gunnar Solskjær 6, David Beckham 4, Paul Scholes 3, Ruud van Nistelrooy 3, Ryan Giggs 1, Laurent Blanc 1, Nicky Butt 1.

Á síðasta aldarfjórðungi hefur Manchester United aðeins tvisvar unnið sjö útileiki í röð. Ole Gunnar Solskjær var aðalmaðurinn í báðum þessum sigurgöngum. Hann situr í stjórastólnum í þessari sigurgöngu og skoraði sex mörk í sjö leikjum í hinni þar á meðal eina markið í einum þeirra.

Hér fyrir neðan má sjá Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundinum eftir leikinn á Selhurst Park í gær.

Klippa: Ole Gunnar Solskjaer Post Match Interview
 
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×