Enski boltinn

Klopp kom á óvart með því hvernig hann notaði Mane og Origi í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane og Divock Origi fagna marki á Anfield í gærkvöldi.
Sadio Mane og Divock Origi fagna marki á Anfield í gærkvöldi. Getty/Simon Stacpoole
Liverpool var án Roberto Firmino á móti Watford í gær og þurfti alltaf að gera breytingar á sóknarlínu sinni. Ekki bara vegna þess heldur eftir tvo markalausa leiki í röð þar sem liðið var ekki sjálfu sér líkt.

Liverpool liðið hafi gert þrjú jafntefli í síðustu fjórum deildarleikjum og mátti alls ekki við fleiri „slysum“ ´ætlaði liðið sér Englandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 29 ár.

Sóknarleikur liðsins hefur verið gagnrýndur enda ekki sama flæði og ógn í honum eftir áramót og fyrri hluta tímabilsins þegar sóknarmenn Liverpool fór á kostum.

Það var ekki til að auka á bjartsýnina þegar Roberto Firmino datt út vegna meiðsla enda Brasilíumaðurinn lykilmaður í að brjóta upp varnir mótherjanna með sniðugum og útsjónarsömum sendingum.

En hver átti að koma inn í staðinn fyrir Roberto Firmino. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kallaði á Divock Origi en ekki á menn eins og Daniel Sturridge og Xherdan Shaqiri til að fylla í skarð Firmino.





Klopp kom ekki aðeins á óvart þar heldur einnig hvar hann lét Divock Origi spila á vellinum. Flestir hefðu veðjað að hann kæmi bara inn í hlutverk fremsta manns en í staðinn var hann út á vinstri væng, í stöðunni hans Sadio Mane.

Sadio Mane var aftur á móti kominn upp á topp. Það er óhætt að segja að þessi tilfærsla hafi gengið vel upp því Mane skoraði tvö fyrstu mörkin, Origi kom liðinu í 3-0 og Liverpool vann á endanum 5-0. Með þessum stórsigri vann Liverpool fjögur mörk á Manchester City í markatölubaráttu liðanna. Hér fyrir neðan má sjá mörk Liverpool í leiknum.



Klippa: FT Liverpool 5 - 0 Watford


Jürgen Klopp var eftir leikinn spurður út í þá ákvörðun sína að nota Sadio Mane sem fremsta mann.

„Þetta var fyrsta hugmyndin sem kom upp og við breyttum þessu ekki eftir það. Í þessari stöðu þarftu leikmann sem getur bæði athafnað sig á litlu svæði sem og stungið sér inn fyrir vörnina. Leikmann sem aðlagar sig að vörn mótherjanna og leikmann sem er með mikla fótboltagreind,“ sagði Jürgen Klopp.

„Við erum með aðra leikmenn sem gætu spilað þarna en þeir eru ekki með hraðann hans Sadio. Hann hefur spilað margar stöður á fótboltaferli sínum og fyrir okkur líka. Ég var ekki í neinum vafa um að hann gæti spilað þarna,“ sagði Klopp.

Sadio Mane hefur nú skorað í fimm heimaleikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og er að undanförnu oftar en ekki sá maður sem brýtur ísinn og kemur liðinu í 1-0 í leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×