Enski boltinn

Braut City reglur er þeir fengu „einn mest spennandi leikmann heims“?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sancho í leik með Dortmund.
Sancho í leik með Dortmund. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið rannsakar nú hvort að Manchester City hafi brotið reglur sambandsins er þeir klófestu Jadon Sancho frá Watford er hann var fjórtán ára.

Ásakanirnar komu fram í skjölum þýska miðilsins, Der Spiegel, sem hefur verið að opinbera eitt og annað í knattspyrnuheiminum undanfarin ár. Manchester City er nýjasta dæmið.

Þar segir að City hafi borgað Emeka Obasi, umboðsmanni Sancho, 200 þúsund pund til þess að klófesta Sancho frá Watford árið 2015 en hann var þá einungis fjórtán ára gamall.







Reglur enska sambandsins segja að leikmenn mega ekki vera með umboðsmann fyrr en þeir eru sextán ára gamlir og ekki má bjóða leikmönnum peninga undir sextán ára aldri fyrir að ganga í raðir félagsins.

Sancho lék aldrei fyrir aðallið City og ákvað að ganga í raðir Dortmund sumarið 2017 fyrir átta milljónir punda. Hann hefur farið á kostum á leiktíðinni og verið einn besti leikmaður í Bundesligunni það sem af er tímabils.

Hann skrifaði undir nýjan samning við Dortmund í október og þar sagði Dortmund í yfirlýsingunni um samninginn að hann væri einn af mest spennandi leikmönnum Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×