Enski boltinn

Líklegt að það kvikni aftur á Mo Salah á móti uppáhaldsmótherjanum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar marki á móti Watford.
Mohamed Salah fagnar marki á móti Watford. Getty/Richard Heathcote
Liverpool maðurinn Mohamed Salah þarf svolítið að sanna sig aftur í kvöld þegar Liverpool tekur á móti Watford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir mjög dapra frammistöðu Egyptans á móti Manchester United um síðustu helgi.

Mohamed Salah var nánast ósýnilegur í United-leiknum og Jürgen Klopp ákvað á endanum að taka markahæsta mann ensku úrvalsdeildarinnar af velli þótt staðan væri markalaust.

Mohamed Salah hefur skorað 17 mörk í 27 deildarleikjum á þessu tímabili en aðeins eitt þeirra hefur komið í síðustu fjórum leikjum. Hann er í lægð og þarf að finna taktinn á ný.

Mótherji kvöldsins er aftur á móti uppáhaldsmótherji Mohamed Salah eins og sjá má á þessari samantekt fésbókarsíðu Liverpool hér fyrir neðan.



Mohamed Salah hefur nefnilega skorað 6 mörk í 3 leikjum á móti Watford síðan að hann gekk til liðs við Liverpool fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan. Hann hefur líka lagt upp önnur tvö mörk til viðbótar í þessum þremur leikjum sínum á móti Watford. Átta mörk í þremur leikjum er engin smá tölfræði og það er því von á einhverju góðu í beinni á Stöð 2 Sport á eftir.

Salah skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir Roberto Firmino í 3-3 jafntefli Liverpool og Watford í ágúst 2017, hann skoraði þrennu og lagði upp annað mark fyrir Firmino í 5-0 sigri Liverpool á Watford á Anfield í mars í fyrra og þá skoraði hann fyrsta markið í 3-0 sigri á Watford í fyrri leik liðanna á þessari leiktíð.

Salah hefur líka skorað 6 mörk á móti Bournemouth en það í fjórum leikjum. Egyptinn snjalli hefur síðan skorað 4 mörk á móti Arsenal, West Ham og Southampton.

Útsending Stöð 2 Sport frá leik Liverpool og Watford hefst klukkan 19.50 í kvöld. Leikur Crystal Palace og Manchester United verður sýndur á sama tíma á Stöð 2 Sport 2 og leikur Chelsea og Tottenham er í beinni á Stöð 2 Sport 3. Allir leikirnir hefjast klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×