Enski boltinn

Klopp: Ekki síðasti séns Liverpool á titlinum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp. vísir/getty
Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með eins stigs forskot á Manchester City. Frammistaða Liverpool í síðustu leikjum hefur hins vegar ekki verið mjög sannfærandi.

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, minnti á það á blaðamannafundi sínum að þetta sé ekki síðasti séns Liverpool á að vinna Englandsmeistaratitilinn heldur sá fyrsti.

„Engin planta vex eins hratt og væntingar,“ sagði Þjóðverjinn.

„Þegar fyrsta tækifærið kemur þá stekkur þú á það og sérð hvort það gangi eftir. Stundum gerir það það, stundum ekki. Þetta er ekki okkar síðasti séns, alveg örugglega ekki.“

„Ekkert lið er stöðugt með góðar frammistöður. Auðvitað viljum við fljúga aðeins meira, en það er ekki viljinn sem lætur þig fljúga, þú þarft að vinna fyrir því.“

Með City á hælunum á Liverpool, þarf Klopp að vinna alla leiki sem eftir eru?

„Það hljómar eins og mjög erfitt verkefni. Er það eini möguleikinn fyrir okkur til að vinna? Ég veit það ekki.“

„Við reynum að vinna alla leiki sem eftir eru. Kannski náum við öllum 11, en við hugsum bara um einn í einu.“

Liverpool mætir Watford í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×