Enski boltinn

United menn spretta úr spori undir stjórn Solskjær en það kostar sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesse Lingard er einn af meiddu mönnunum hjá Manchester United.
Jesse Lingard er einn af meiddu mönnunum hjá Manchester United. Getty/Mitchell Gunn
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkennir að aukið álag á leikmenn sé hluta skýringarinnar á því að leikmenn hans hrynja nú niður í meiðsli hver á fætur öðrum.

Manchester United gæti verið án níu aðalliðsleikmanna í leiknum á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Meðal þeirra eru Juan Mata, Ander Herrera og Jesse Lingard sem meiddust allir í fyrri hálfleik á móti Liverpool um síðustu helgi.





„Það er líklega einhver tenging þarna á milli,“ viðurkenndi Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi í gær. Hann vill spretti og tempó sem er eitthvað allt annað en var í gangi hjá United í byrjun tímabilsins.

Á meðan Jose Mourinho stýrði liðinu í vetur þá var United meðal neðstu liða á listum með tölur um hlaup og spretti leikmanna. Solskjær keyrði upp tempó og hraða í liðinu en það hefur líklega aukið álagið of mikið.

Nemanja Matic, Phil Jones, Antonio Valencia, Anthony Martial og Matteo Darmian eru allir líka frá keppni vegna meiðsla og Marcus Rashford er að berjast við að ná sér góðum af ökklameiðslum sem hann spilaði í gegnum í Liverpool-leiknum.





Manchester United er reyndar að hlaupa minna hjá Ole Gunnar Solskjær en Jose Mourinho (107,7 km í leik á móti 108,1 km) en mesti munurinn er á sprettunum.

Undir stjórn Solskjær eru leikmennirnir aða taka 108,6 spretti í leik en þeir voru bara 98,6 í leik í leikjunum undir stjórn Jose Mourinho

„Hvenær er best að breyta þessu? Er rétt að bíða þar til á undirbúningstímabilinu og haldið þið að liðið nái betri úrslitum ef maður biður leikmennina að spretta ekki. Eða byrjum við strax að spila á fullu og sýna hvernig við viljum spila?,“ spurði Ole Gunnar Solskjær á fundinum.

„Þið sjáið vel hvaða leið ég valdi. Við þurfum að spila eins og Manchester United lið. Ef þú vilt vera hluti af Manchester United liði þá snýst þetta bara um það að þeir hæfustu lifa af er það ekki?,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×