Enski boltinn

Pochettino segir tíu ár í að Tottenham geti orðið meistari

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mauricio Pochettino
Mauricio Pochettino vísir/getty
Mauricio Pochettino segir það gæti tekið Tottenham fimm til tíu ár að vinna Englandsmeistaratitilinn eftir tap liðsins fyrir Burnley um helgina.

Strax að leik loknum, þar sem Tottenham tapaði 2-1, sagði Pochettino að titilbaráttan væri úr sögunni hjá hans mönnum. Nú hefur hann tekið þetta enn lengra og segir mörg ár þar til Tottenham geti unnið deildina.

„Ef þú vilt berjast um titilinn að alvöru þá þarftu að vinna þennan leik, hvort sem þú spilar vel eða illa,“ sagði Argentínumaðurinn.

„Liðið þarf að sýna að það sé að berjast um stóra hluti og ég er pirraður á því að við höfum ekki sýnt sömu orku, sama hugarfar og sama metnaðinn og Burnley.“

„Þetta heldur aftur af okkur og það gæti tekið fimm, tíu ár að breyta því.“

Tottenham mætir Chelsea í stórleik í úrvalsdeildinni í kvöld. Pochettino hefur ekki áhyggjur af hugarfari sinna manna í þeim leik, og það er hluti af vandamálinu.

„Að mæta liðum eins og Chelsea og Arsenal á útivelli, það er auðvelt. Þú þarft ekki að hvetja liðið áfram.“

„En ef við höfum ekki viljann til þess að sýna sömu baráttu gegn Burnley þá eigum við ekkert skilið.“

„Við sýndum það á laugardaginn að við erum gott lið, en ekki nógu gott til þess að vinna titilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×