Enski boltinn

Einn óheppnasti fótboltamaður sögunnar leggur skóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abou Diaby.
Abou Diaby. Getty/Tom Jenkins
Abou Diaby hefur spilað sinn síðasta knattspyrnuleik á ferlinum og er því meiðslahrjáður fótboltaferill hans á enda.

Abou Diaby þótti efni í frábæran fótboltamann og hafði allt í það nema skrokkinn sem gaf eftir aftur og aftur.

Abou Diaby er bara 32 ára gamall þegar hann leggur fótboltaskóna á hilluna en franski miðjumaðurinn hefur ekki spilað keppnisleik síðan árið 2016.





Það er óhætt að kalla Diaby einn óheppnasti fótboltamann sögunnar því hann missti af ótrúlega mörgum leikjum á ferlinum vegna meiðsla.

„Það er kominn tími á að hætta þessu. Það hefur verið erfitt fyrir mig að komast aftur inn á völlinn síðustu ár. Ég hef glímt við mörg vandamál með skrokkinn á mér. Á vissum tímapunkti þá þarftu að spyrja sjálfan þig réttu spurningarinnar,“ sagði Abou Diaby í viðtali við RMC Sport TV.

„Ég hef ákveðið að hætta því líkaminn er ekki að fylgja mér. Þetta er erfitt því ég hef eytt mestum hluta lífs míns í fótboltanum. Þessi kafli er að lokast en nýr mun opnast í staðinn. Ég tek þessa ákvörðun af vel ígrunduðu máli,“ sagði Diaby.





Abou Diaby átti að flestra mati glæsta framtíð fyrir sér í fótboltanum þegar hann kom til Arsenal í janúar 2006 þá ekki orðinn tvítugur.

Diaby var hæfileikaríkur og minnti þá marga á Patrick Vieira enda var honum ætlaði að fylla í skarð Vieira sem Arsenal seldi til Juventus hálfu ári fyrr.

Paul Pogba er einn af miklum aðdáendum hans eins og sjá má hér fyrir neðan.





Diaby var í níu ár hjá Arsenal en alltaf þegar hann var að komast á eitthvað flug þá meiddist hann aftur. Hann lék alls 180 leiki með Arsenal í öllum keppnum á þessum rétt tæpa áratug og skoraði 9 mörk.

Diaby missti aftur á móti af 250 leikjum með Arsenal vegna átján mismunandi meiðsla Hann var frá í alls 1937 daga en það er meira en fimm ár á meiðslalistanum.

Það er því ekkert skrítið að sumir kalli Abou Diaby einn óheppnasta fótboltamann sögunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×