Enski boltinn

Gera grín að Mohamed Salah á netinu og ekki að ástæðulausu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah í leiknum um helgina.
Mohamed Salah í leiknum um helgina. getty/Robbie Jay Barratt
Liverpool framherjinn Mohamed Salah hefur mátt þola mikla gagnrýni og háð á samfélagsmiðlum eftir mjög slaka frammistöðu sína á móti Manchester United í gær.

Mohamed Salah er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en fólk hefur verið duglegt að benda á það að hann hefur skorað 16 af 17 mörkum sínum á móti slakari liðum deildarinnar.

Frammistaða Egyptans á móti Manchester United á Old Trafford var enn eitt dæmið um bitleysi Salah á móti liðum sem seta stefnuna á að berjast um enska meistaratitilinn við Liverpool. Netverjar gera grín að Mohamed Salah á samfélagsmiðlum og ekki að ástæðulausu því tölfræðin sýnir það og sannar að Salah getur ekkert á móti bestu liðunum. Dæmi um slíkt grín er hér fyrir neðan.





Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ákvað meira að segja að taka út sína stærstu stjörnu í stöðunni 0-0 enda var Mohamed Salah aldrei með í þessum leik í gær.

Áhyggjuefnið er þó ekki aðeins þessi leikur í gær heldur frammistaða Mohamed Salah í leikjum á móti bestu liðum deildarinnar. Það er nefnilega engin nýmæli að Salah gerir lítið á móti liðum eins og Manchester United, Manchester City, Tottenham, Chelsea og Arsenal.





Mohamed Salah hefur aðeins skorað eitt mark í átta leikjum á móti sex stærstu liðunum á þessu tímabili og það mark kom úr vítaspyrnu á móti Arsenal. Í sama leik, sem Liverpool vann 5-1, kom líka eina stoðsendingin hans á móti bestu liðunum.  

Salah hefur aftur á móti komið að 23 mörkum í 19 leikjum á móti hinum fjórtán liðunum í ensku úrvalsdeildinni. Á þessu er rosalegur munur.

Mohamed Salah á móti bestu liðunum í vetur:

2-1 sigur á Tottenham: 0 mörk + 0 stoðsendingar

1-1 jafntefli við Chelsea: 0 mörk + 0 stoðsendingar

0-0 jafntefli við Manchester City: 0 mörk + 0 stoðsendingar

1-1 jafntefli við Arsenal: 0 mörk + 0 stoðsendingar

3-1 sigur á Manchester United: 0 mörk + 0 stoðsendingar

5-1 sigur á Arsenal:  1 mark + 1 stoðsending

2-1 tap fyrir Manchester City:  0 mörk + 0 stoðsendingar

0-0 jafntefli við Manchester United:  0 mörk + 0 stoðsendingar

Samtals: 1 mark og 1 stoðsending í 8 leikjum

Á móti öðrum liðum: 16 mörk og 7 stoðsendingar í 19 leikjum.

Mohamed Salah hefur mætt Manchester United fjórum sinnum á tveimur tímabilum sínum með Liverpool en hefur enn ekki náð að skora eða leggja upp mark á móti erkifjendum Liverpool.





Annars er öll sóknarlína Liverpool í vandræðum á móti vörn Manchester United eins og sést á tölfræðinni hjá þeim Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino.

Saman hafa þessi þrír frábæru fótboltamenn aðeins komið samtals að tveimur mörkum í leikjum á móti Manchester United. Sadio Mané er með 1 mark í 4 leikjum og Roberto Firmino er með 1 stoðsendingu í 8 leikjum. Mohamed Salah er hins vegar fastur í núllinu á báðum vígstöðvum.





Liverpool þurfti á magnaðri innkomu hjá Svisslendingnum  Xherdan Shaqiri að halda til að landa sigri á Manchester United í fyrri leiknum. Xherdan Shaqiri kom líka inn á í leiknum í gær sem og Divock Origi sem hafði bjargað Liverpool á móti Everton fyrr í vetur. Það breytti engu og Liverpool skapaði ekkert í leiknum.

Liverpool komst í efsta sætið þökk sé stiginu á Old Trafford en þarf nauðsynlega á einhverju meiru að halda frá Mohamed Salah ætli liðið að vinna enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 29 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×