Enski boltinn

„Frábær vika fyrir Liverpool ef þeir eru enn í efsta sætinu á sunnudaginn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna marki á tímabilinu.
Leikmenn Liverpool fagna marki á tímabilinu. Getty/Nick Taylor
Liverpool náði aftur efsta sætinu í ensku úrvalsdeildinni í gær en þó með engum glæsibrag. Framundan er viðburðarrík vika.

Bitlaust Liverpool lið fór með stig frá Old Trafford í stórleik helgarinnar og náði um leið eins stigs forskoti á Manchester City sem var á sama tíma upptekið við að tryggja sér fyrsta titil tímabilsins.

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og nú knattspyrnusérfræðingur á Sky Sports, spáði í framhaldið fyrir sína menn í umfjöllun Sky Sports um leik Manchester United og Liverpool í gær.





„Liverpool átti að vinna þennan leik en það er öll vikan sem skiptir mestu máli en ekki bara Manchester United leikurinn,“ sagði Jamie Carragher.

Það er nefnilega stutt á milli leikja þessa dagana hjá Liverpool sem mætir Watford á Anfield á miðvikudagskvöldið og svo nágrönnum sínum í Everton á Goodison Park á sunnudaginn.

„Ef Liverpool klárar þessa viku vel og er enn í efsta sætinu í deildinni eftir hana þá er þetta góð vika. Þetta er vika þar sem Manchester City gæti tapað stigum,“ sagði Carragher.

Manchester City mætir West Ham á heimavelli á miðvikudagskvöldið og síðan er útileikur við Bournemouth á laugardaginn. Liðið var að vinna titil og það gæti mögulega truflað einbeitingu lærisveina Pep Guardiola þótt liðið ætti að vinna báða leiki frekar sannfærandi.

Staða Liverpool liðsins 4. mars mun segja Jamie Carragher um þróun mála í framhaldinu.

„Ef Liverpool er enn á toppnum eftir Everton-leikinn þá eru þeir í frábærri stöðu til að vinna ensku deildina,“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×