Enski boltinn

Bera saman orð Kevin Keegan frá 1996 við orð Jürgen Klopp í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Keagan og Jürgen Klopp.
Kevin Keagan og Jürgen Klopp. Samsett/Getty
Liverpool liðið er búið að tapa niður tíu stiga forskoti í ensku úrvalsdeildinni á tveimur mánuðum og Manchester City situr nú í toppsæti deildarinnar.

Sögufróðir menn muna vel eftir hruni Newcastle United tímabilið 1995-96 og viðtal við Jürgen Klopp eftir markalaust jafntefli á móti Everton í gær hefur kallað á samanburð við viðtal við knattspyrnustjóra Newcastle fyrir 23 árum síðan.

Liverpool liðið hefur verið á toppnum í yfir hundrað daga á tímabilinu en datt niður í annað sætið um helgina eftir jafntefli á móti nágrönnum sínum í Everton.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var pirraður á blaðamannafundinum eftir leikinn þegar hann var spurður út í varfærnislegan leik Liverpool-liðsins. Taugaveiklaður og bitlaus sóknarleikur hefur verið algeng sjón fyrir stuðningsmenn Liverpool í mörgum undanförnum leikjum. Klopp hafði engan húmor fyrir einni spurningu.

Þegar Klopp fór að snúa út úr spurningu um að taka ekki áhættu þá voru menn fljótir að benda á orð Kevin Keagan frá 1996.





„Fannst þér við ekki taka nægilega mikla áhættu í dag? Ég er með tvo bakverði sem spila sem kantmenn. Miðvörðurinn minn var einu sinni framherji. Markmaðurinn minn spilar á miðjunni á æfingum. Þetta er ekki skák,“ sagði Kevin Keegan en Klopp talaði á svipuðum nótum.

„Fannst þér við ekki taka nægilega mikla áhættu í dag? Ég er mjög vonsvikinn með slíka spurningu. Heldur þú að þetta sé Playstation? Setja inn auka sóknarmann og allt breytist. Fótboltinn er ekki þanng. Við förum ekki á taugum eins og þú greinilega,“ sagði Jürgen Klopp sem er vanalega þolinmóður á blaðamannafundum og fer sjaldan í leiðindi. Enn eitt dæmið um að pressan sé að trufla menn á Anfield.

En af hverju að bera þessi ummæli saman? Jú fyrir 23 árum þá klúðraði Newcastle United Englandsmeistaratitlinum eftir að vera langt komið með að vinna titilinn í janúar. Það lítur út fyrir það að Liverpool sé að feta sömu slóð í vetur.

Newcastle United var í frábærum málum í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1995 til 1996 og náði tíu stiga forskoti á toppnum eftir leikina 23. desember. Liðið varð síðan með tólf stiga forskot frá byrjun janúar fram í febrúar.

Manchester United vann hægt og rólega upp forskotið og það munaði aðeins einu stigi eftir 1-0 sigur United á Newcastle í innbyrðisleik liðanna í byrjun mars. Liðin voru síðan jöfn að stigum þegar tveir leikir voru eftir.

Newcastle gerði 1-1 jafntefli á lokadeginum og Manchester United tryggði sér titilinn með 3-0 sigri á Middlesbrough.

Í framhaldinu leystist Newcastle United liðið upp og Kevin Keegan var hættur með liðið í janúar 1997.

Nú er spurning hvort maðurinn hér fyrir neðan sé að fara að upplifa sömu vonbrigði og Kevin Keegan fyrir 23 árum síðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×