Enski boltinn

Solskjær: Minnti á gömlu dagana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Solskjær þekkir það að skora fyrir framan stútfulla stúkuna í Stretford End
Solskjær þekkir það að skora fyrir framan stútfulla stúkuna í Stretford End
Ole Gunnar Solskjær var himinlifandi með að Manchester United sýndi anda sem minnti á gömlu dagana í sigrinum á Southampton í gær.

Áhorfendur fengu sitt fyrir peninginn á Old Trafford, Yan Valery kom Southampton yfir með glæsilegu marki áður en Andreas Pereira og Romelu Lukaku komu United yfir.

James Ward-Prowse jafnaði beint úr aukaspyrnu en Lukaku tryggði United sigurinn á lokamínútunum.

Solskjær sagði þetta hefði sannarlega minnt á gömlu góðu dagana undir stjórn Sir Alex Ferguson þar sem United var frægt fyrir að finna alltaf sigurmark á lokamínútunum.

„Hvernig við unnum, þetta er eins og í gamla daga. Ég var sjálfur hluti af svona sigrum svo mörgu sinnum,“ sagði Solskjær.

„Við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum bara að spila aðeins meira fram á við og Stretford End myndi soga boltann í netið.“

„Það var karakter og trú sem vann þennan leik, frekar heldur en gæði. Það voru gæði í mörkunum þremur, en fyrir utan það þá vantaði aðeins upp á leik okkar.“

Klippa: Ole Gunnar Solskjaer Post Match Interview





Fleiri fréttir

Sjá meira


×