Enski boltinn

Guðni forseti hitti Sir Alex á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson og Sir Alex Ferguson.
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson og Sir Alex Ferguson. Samsett/EPA
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, er mikill íþróttáhugamaður og hann hefur ekki bara áhuga á íslenskum íþróttum. Forsetinn var nefnilega meðal áhorfenda á leik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Stuðningsmannaklúbbur Manchester United á Íslandi segir frá skemmtilegri ferð forsetans þótt að leikurinn hefði mátt vera skemmtilegri enda endaði leikurinn með markalausu jafntefli.  

Stuðningsmannaklúbbur Manchester United á Íslandi segir frá ferð forsetans á fésbókarsíðu sinni. Guðni hefur haldið með Manchester United frá æsku og hann skellti sér á leikinn á Old Trafford ásamt Elizu Reid, eiginkonu sinni, og fjórum börnum þeirra, Duncan Tindi, Donald Gunnari, Sæþóri Peter og Eddu Margréti.

Guðni Th. og fjöldsskylda hans fékk líka mjög góðar móttökur í Manchester en stuðningsmannaklúbbur Manchester United á Íslandi hafði milligöngu um ferð Guðna og fjölskyldu á völlinn. Þar hittu þau meðal annars Sir Alex Ferguson, sigursælasta knattspyrnustjóra sögunnar og fengu einkaskoðunarferð um völlinn.

Sir Alex Ferguson var knattspyrnustjóri Manchester United frá 1986 til 2013 og undir hans stjórn vann félagið 38 titla þar af ensku úrvalsdeildina þrettán sinnum.

Rúnar Ívarsson, formaður klúbbsins, segir í samtali, við fésbókarsíðu stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi, að tengiliðir stuðningsmannaklúbba hafi í fyrstu ekki ætlað að trúa því að þjóðhöfðingi væri að koma á völlinn. Þau sannfærðust þó fljótt og hófust handa við að undirbúa komuna.

Að mörgu þurfti að huga, svo sem öryggisgæslu og samskiptareglum við móttöku þjóðhöfðingja. Þegar á staðinn var komið fékk fjölskyldan sæti í heiðursstúkunni og var boðið í mat í Chairman‘s Lounge á leikdegi. Næsta dag fór fjölskyldan í skoðunarferð um Old Trafford.

Rúnar og Sigrún Sölvey Gísladóttir voru fararstjórar forsetafjölskyldunnar. Rúnar segir að Guðni, Eliza og börnin hafi skemmt sér hið besta. Þá hafi öll móttaka verið til mestu fyrirmyndar og forsetahjónin og fjölskylda heillað starfsfólk á Old Trafford.

Það má sjá meira um þessa ferð forsetans hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×