Enski boltinn

Agüero er ekki hræddur við Drake bölvunina en Liverpool menn brosa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ætli Sergio Agüero muni sjá eftir myndatökunni með Drake?
Ætli Sergio Agüero muni sjá eftir myndatökunni með Drake? Getty/ Marc Atkins
Argentínski knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero er fullur sjálfstraust þessa dagana enda á Manchester City möguleika á því að vinna fjórfalt í ár.

Sergio Agüero hefur verið frábær með liði Manchester City á tímabilinu og er þegar kominn með 27 mörk í öllum keppnum þar af átján þeirra í ensku úrvalsdeildinni.

Svo sigurviss er Sergio Agüero orðinn eftir þetta góða gengi sitt og liðsins að hann er ekki einu sinni hræddur við Drake bölvunina.





Sergio Agüero tók mynd af sér með kanadíska tónlistarmanninum Drake í byrjun vikunnar en slíkt hefur sjaldan komið vel út fyrir íþróttamenn.

Bandarísk háskólalið í körfubolta og fótbolta, UFC bardagakappar, NBA-meistarar og goðsögn í tennisheiminum eru meðal þeirra sem hafa verið fórnarlömb Drake bölvunarinnar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um Drake bölvunina.





Það er því ekkert skrýtið að stuðningsmenn Liverpool hafi brosað þegar þeir sáu myndina af Sergio Agüero og Drake. Þeir muna sjálfir eftir bölvun hans frá 2014.

Sergio Agüero fann ekki mikið fyrir Drake bölvuninni í fyrsta leik því Manchester City vann 7-0 sigur á Schalke 04 í Meistaradeildinni í gær þar sem argentínski framherjinn skoraði tvö fyrstu mörkin.

Það eru átta leikir eftir og Manchester City er með eins stigs forskot á Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

City hefur náð aftur frumkvæðinu með tíu sigrum í síðustu ellefu deildarleikjum og Sergio Agüero hefur skorað 10 mörk í þessum ellefu leikjum.

Nú þarf Manchester City ekki bara að vinna Liverpool í titilbaráttunni heldur einnig að sigrast á Drake bölvuninni. Það hefur reynst mörgum frábærum liðum og íþróttamönnum erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×