Fótbolti

Higuain leggur landsliðsskóna á hilluna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Einn af síðustu landsleikjum Higuain var gegn Íslandi á HM.
Einn af síðustu landsleikjum Higuain var gegn Íslandi á HM. vísir/getty
Argentínski framherjinn Gonzalo Higuain hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna aðeins 31 árs að aldri.

Higuain hefur skorað 31 mark í 75 landsleikjum með Argentínu. Hann hefur ekki spilað með landsliðinu síðan á HM síðasta sumar.

„Ég hef tekið þessa ákvörðun því ég vil njóta lífsins enn frekar með fjölskyldunni minni. Ég vil njóta þess að eyða tíma með dóttur minni en vita á sama tíma að ég hafi gefið landi mínu allt sem ég gat,“ sagði Higuain sem er í láni hjá Chelsea frá Juventus.

„Ég mun gefa allt sem ég á sömuleiðis til Chelsea. Það er það eina sem ég einblíni á núna. Enska úrvalsdeildin er frábær og ég nýt þess að spila þar.“

Higuain hefur oftar en ekki verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með argentínska landsliðinu enda hefur það ekki náð þeim árangri sem til var ætlast af liðinu á stórmótum.

„Fólk man oft frekar eftir færunum sem klúðruðust heldur en mörkunum sem eru skoruð. Ég man vel að fjölskylda mín tók það mjög nærri sér er ég var gagnrýndur verulega harkalega. Ég geng þó burt með höfuðið hátt enda lagði ég mig alltaf allan fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×