Fótbolti

Sara úr leik í Meistaradeildinni eftir tap gegn Evrópumeisturunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara í fyrri leik liðanna.
Sara í fyrri leik liðanna. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar í Vfl Wolfsburg eru úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir tap gegn Lyon í kvöld, 4-2.

Wolfsburg tapaði fyrri leiknum í Frakklandi 2-1 og því var allt opið fyrir síðari leikinn í Þýskalandi í kvöld þar sem Wolfsburg náði ð skora útivallarmark. Sömu lið mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð þar sem Lyon hafði betur.

Það byrjaði ekki vel fyrir Wolfsburg því Dzsenifer Marozsan kom Lyon yfir á áttundu mínútu og á 25. mínútu var staðan orðinn 2-0 er Wendie Renard skoraði úr vítaspyrnu. Þannig stóðu leikar í hálfleik.







Besta knattspyrnukona heims, Pernille Harder, minnkaði muninn á 53. mínútu og hún jafnaði svo metin þremur mínútum síðar. Því þurfti Wolfsburg að skora tvö mörk í viðbót til að koma sér áfram.

Það varð að engu er Eugenie Le Sommer kom Lyon í 3-2 og hún var svo aftur á ferðinni tíu mínútum fyrir leikslok er hún kom Lyon í 4-2. Það urðu lokatölurnar og samanlagt 6-3 sigur Lyon.

Sara Björk spilaði allan leikinn fyrir Wolfsburg í kvöld en hún átti hörkuskot á 66. mínútu sem var vel varið af markverði Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×