Fótbolti

Skvettu sjóðheitu vatni á kvenkyns aðstoðardómara

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Paz á hliðarlínunni í Argentínu.
Paz á hliðarlínunni í Argentínu.
Ótrúlegt atvik kom upp í argentínska boltanum á dögunum en þá var ráðist á annan aðstoðardómara leiksins.

Sú heitir Rosana Paz og var á línunni í leik Marquesado og San Martin í 6. deild argentínska boltans. Er tvær mínútur voru eftir af leiknum var skvett sjóðheitu vatni yfir hana úr stúkunni.

Aðstoðardómarinn hinum megin hafði þá flaggað gegn heimaliðinu og brugðist var við í stúkunni með því að ráðast á hinn aðstoðardómarann.

„Ég fann brennandi heitt vatnið á bakinu og bað um kalt vatn til að kæla sárið. Þeir vildu flauta leikinn af en við sömdum um að klára leikinn,“ sagði Paz en hún var flutt á sjúkrahús eftir leikinn þar sem í ljós kom að hún var með alvarleg brunasár.

„Ég mun ekki láta þetta stöðva mig. Svona má ekki gerast, sama hvort kynið er á línunni. Það er erfitt að vera kona í fótboltanum hérna en ég mun ekki láta þetta buga mig. Ég fæ vonandi að dæma einhvern leik um næstu helgi,“ sagði Paz grjóthörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×