Enski boltinn

Klopp kom með góðar og slæmar fréttir er hann var spurður út í meiðslin hjá Liverpool

Anotn Ingi Leifsson skrifar
Klopp á æfingu Liverpool í vikunni.
Klopp á æfingu Liverpool í vikunni. vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, staðfesti í gær að varnarmaðurinn, Joe Gomez, hafi snúið aftur á æfingar eftir að hafa verið á meiðslalistanum í rúma þrjá mánuði.

Gomez meiddist eftir harkalega tæklingu í leik gegn Burnley þann fimmta desember og hefur síðan þá verið á meiðslalistanum.

Gomez sneri til baka í gær en sá þýski sagði að Gomez þyrfti að komast í betra form til þess að geta komið til greina í leikmannahóp Liverpool í þeim leikjum sem eftir er af leiktíðinni.

„Þetta er gott. Joe er ekki lengur meiddur og er næstum klár. Ég held að hann hafi verið frá í fimmtán vikur og það er langur tími. Hann þarf núna að ná upp sama formi út leiktíðina,“ sagði Klopp

Það voru ekki bara góðar fréttir sem Klopp færði stuðningsmönnum Liverpool í gær en óvíst er hvort að Trent Alexander-Arnold verði klár í slaginn er liðið mætir Tottenham á sunnudaginn.

Trent dró sig út úr enska landsliðshópnum sem mætti Tékklandi og Svartfjallalandi eftir að hafa kennt sér meins í baki en Englendingar unnu báða lekina og skoruðu í þeim samtals tíu mörk.

„Trent finnur enn til í bakinu. Við erum ekki 100% klárir á honum svo við verðum að fylgjast með honum. Hann vill verða hundrað prósent en þetta eru skrýtin meiðsli því þú sérð ekki hvort eitthvað er brotið eða ekki. Það er frekar pirrandi,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×