Fótbolti

Barcelona náði ótrúlegu jafntefli gegn Villareal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi fagnar í kvöld.
Messi fagnar í kvöld. vísir/getty
Barcelona er með átta stiga forskot á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir ótrúlegt 4-4 jafntefli við Villareal á útivelli í kvöld.

Leikurinn var magnaður. Börsungar voru komnir í 2-0 eftir stundarfjórðung en Philippe Coutinho skoraði fyrsta markið áður en Malcom bætti við öðru markinu.

Villareal var ekki lengi að ná inn sárabótarmarki því Samuel Chukwueze minnkaði muninn í 2-1 á 23. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik er Villareal jafnaði metin með marki Karl Toko Ekambi og það var svo Vincente Iborra sem kom Villareal yfir á 62. mínútu.







Staða þeirra vænkaðist til muna er þeir komust í 4-2 en framherjinn Carlos Bacca skoraði fjórða markið. Alvaro Gonzalez, leikmaður Villareal, fékk rautt spjald á 86. mínútu eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald og þá fór allt á hliðina.

Lionel Messi minnkaði muninn á fyrstu mínútunni í uppbótartímanum með marki úr aukaspyrnu en það var svo Luis Suarez sem skoraði jöfnunarmarkið er langt var komið inn í uppbótartímann. Lokatölur 4-4 í ótrúlegum knattspyrnuleik.

Börsungar eru með 72 stig á toppnum, átta stigum meira en Atletico Madrid, en Villareal er í sautjánda sæti deildarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×