Enski boltinn

Settir í bann hjá Chelsea eftir að hafa sungið um Mo Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah sleppur vonandi við að hlusta á þessa söngva í leiknum á móti Chelsea á sunnudaginn kemur.
Mohamed Salah sleppur vonandi við að hlusta á þessa söngva í leiknum á móti Chelsea á sunnudaginn kemur. Vísir/Getty
Liverpool hefur þakkað Chelsea fyrir hversu fljótt þeir brugðust við myndbandi sem var á flakki um samfélagsmiðla í gærkvöldi. Þar reyndu stuðningsmenn félagsins að koma höggi á stjörnu Liverpool liðsins með því að nota kynþáttaníð.

Þrír stuðningsmenn Chelsea fengu ekki að fara inn á leik Slavia Prag og Chelsea í Evrópudeildinni í gærkvöldi. Ástæðan er myndband var í dreifingu á netinu en þar höfðu stuðningsmenn Chelsea verið að syngja saman í Prag.





Forráðamenn Chelsea hafði miklar áhyggjur af myndbandinu þar sem nokkrir stuðningsmenn Chelsea voru samankomnir og sungu níðsöngva um Mohamed Salah.

Chelsea fór strax í málið af fullum krafti og þrír mannanna þekktust. Þeim var í framhaldinu meinaður aðgangur að leiknum á Eden Arena í Prag.

Mohamed Salah er fyrrum leikmaður Chelsea en náði sér aldrei á strik hjá félaginu. Hann fór til Ítalíu en þegar hann kom til baka eftir að Liverpool keypti hann frá Roma, þá sló þessi snjalli Egypti í gegn í ensku úrvalsdeildinni.

Mohamed Salah fann aftur markaskóna sína í sigri á Southampton um síðustu helgi og ætlar sér örugglega að svara þessum stuðningsmönnum Chelsea inn á vellinum.





Framundan er leikur Liverpool og Chelsea á Anfield á sunnudaginn en Liverpool þarf að væntanlega að vinna leikinn til að halda toppsætinu í deildinni á meðan Chelsea er í mikilli baráttu um að tryggja sér Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.

Stuðningsmennirnir sungu „Salah is a bomber“ og voru þar að koma höggi á hann fyrir að vera arabískur og ýja að því að hann sprengdi sig eða aðra í loft upp eins og verstu hryðjuverkamenn.

Kynþáttafordómar á fótboltaleikjum hafa verið mikið í fréttum að undanförnu og það er ljóst að enska knattspyrnusambandið, ensku liðin og aðrir þeim tengdum ætla ekki að leyfa kynþáttarhöturum að komast upp með slíkt mikið lengur.

Það verður hart tekið á öllum málum sem koma upp eins og Chelsea sýndi í verki í gærkvöldi.

Bæði Chelsea og Liverpool sendu líka frá sér yfirlýsingar um málið eins og sjá má hér fyrir neðan. Þar fordæma bæði félög slíka framkomu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×