Fyrirspurn Áslaugar Örnu beindist að ummælum Þórdísar í viðtali við RÚV á dögunum þar sem ráðherrann sagði það íþyngjandi aðgerð að svipta bílaleiguna starfsleyfi og bað hún ráðherra að skýra mál sitt.
Í svari Þórdísar sagðist hún fagna fyrirspurninni og taldi hana vera gott tækifæri til þess að skýra mál sitt. Sagði hún fyrirsögn fréttarinnar vera úr samhengi enda hafi hún átt við að það væri almennt íþyngjandi aðgerð að svipta fyrirtæki starfsleyfinu en Þórdís tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni í síðustu viku.
„Það voru sem sagt ekki mín skilaboð að það væri sérstaklega íþyngjandi fyrir þetta fyrirtæki vegna þeirra brota sem það hafði framið að það væri svipt starfsleyfi.“
Þá sagði Þórdís eftirlit hins opinbera með fyrirtækjum landsins vera það dýrasta innan allra landa OECD og það þyrfti að passa að aukið eftirlit væri ekki svarið við öllu. Það myndi einungis bitna á fyrirtækjum, neytendum og skattgreiðendum að hafa eftirlit sem væri óskilvirkt, kostnaðarsamt eða óþarflega umfangsmikið. Frekar ætti að sjá til þess að refsiábyrgð lögaðila væri nægilega skýr enda myndi aukið eftirlit í þessu tilviki þýða eftirlit með 120 bílaleigum um allt land.
„Þess vegna getur ekki svarið alltaf verið að það þurfi að auka eftirlitið á alla þegar einhver brýtur af sér,“ sagði ráðherrann að lokum.