„Afsakið mig en mér líður illa, mér er óglatt,“ segir Pamela Anderson, bandaríska leikkonan og aktívistinn um líðan sína eftir að hafa heimsótt Julian Assange, ástralska uppljóstrarann, í Belmarsh-öryggisfangelsið í Suðaustur Lundúnum í dag. Assange sé algjörlega einangraður frá umheiminum og hafi ekki fengið að stíga fæti út úr klefanum sínum síðan hann var lokaður inni.
Pamela og Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, voru þau fyrstu sem fengu að heimsækja Assange síðan hann var handtekinn í ekvadorska sendiráðinu fyrir tæpum mánuði síðan. Assange sótti um pólitískt hæli í sendiráðinu og hélt þar til í sjö ár af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna. Assange var 1. maí dæmdur í 50 vikna fangelsi í Bretlandi fyrir að brjóta gegn skilyrðum og svíkjast undan tryggingu.
Pamela og Kristinn héldu stutta yfirlýsingu fyrir fjölmiðla fyrir utan fangelsið að heimsókninni lokinni en Pamela hefur um langt skeið verið ötull stuðningsmaður Assange.
„Hann hefur ekkert til saka unnið svo réttlætanlegt sé að hafa hann í öryggisfangelsi. Hann hefur aldrei framið ofbeldisfullan glæp. Hann er saklaus manneskja,“ segir Pamela sem segir að það hafi verið sársaukafullt að komast að því hvernig aðbúnaður Assange sé í fangelsinu.
„Þetta er spurning um líf eða dauða. Það er alvarleiki málsins,“ sagði Kristinn.
Réttlætið muni velta á almenningsálitinu
Pamela sagði að Assange þyrfti á stuðningi almennings að halda. Þegar öllu yrði á botninn hvolft myndi réttlætið velta á almenningsálitinu og stuðningi frá alþjóðasamfélaginu.
„Hann er góður maður, hann er stórkostleg manneskja. Ég elska hann og ég get ekki ímyndað mér hvað hann er að ganga í gegnum núna. Það var gott að sjá hann, frábært að sjá hann, en þetta er bara misnotkun á dómskerfinu í framkvæmd,“ segir Pamela sem kveðst hafa fengið áfall þegar hún komst að því að hann hafi þurft að húka inni í klefanum í allan þennan tíma.
