Enski boltinn

Liverpool þarf hjálp frá stórleikja-Vardy

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jamie Vardy fagnar marki númer 30 á móti þeim sex bestu.
Jamie Vardy fagnar marki númer 30 á móti þeim sex bestu. vísir/getty
Næst síðasta umferðin í ensku úrvalsdeildinni fer fram um helgina en titilbarátta Manchester City og Liverpool er enn þá á fullu þegar aðeins tveir leikir eru eftir.

Manchester City er á toppnum með 92 stig, stigi meira en Liverpool og mætir Leicester á mánudagskvöldið. Liverpool getur þá vermt toppsætið en það mætir Newcastle í kvöldleik á laugardaginn á útivelli.

Liverpool er ansi líklegt til að klára Newcastle-menn sem sigla lygnan sjó rétt fyrir neðna miðja deild og hafa ekki áhyggjur af neinu. Lærisveinar Jürgens Klopps þurfa svo smá hjálp frá Leicester til að halda toppsætinu fyrir lokaumferðina.

Maðurinn sem Liverpool þarf að treysta á er Jamie Vardy, framherji Leicester, sem er alveg einstaklega góður að koma boltanum í markið á móti bestu liðum deildarinnar. Hann skoraði tvívegis um síðustu helgi þegar að Leicester vann Arsenal, 3-0.

Vardy er nú búinn að skora 30 mörk á móti sex bestu liðum deildarinnar á sínum ferli í ensku úrvalsdeildinni sem er tæplega helmingur marka hans í deild þeirra bestu.

Framherjinn magnaði er búinn að skora 80 mörk í ensku úrvalsdeildinni í 174 leikjum, þar af 30 sem fyrr segir á móti þeim sex bestu. Hann kann svo sannarlega að skora á móti stórliðunum.

Vardy hefur einnig staðið sig vel á móti Manchester City en hann hefur skorað fimm mörk og lagt upp eitt í ellefu leikjum á móti Manchester City í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×