Innlent

EFTA-ríkin lýsa yfir sérstöðu Íslands í raforkumálum

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti fyrir ríkisstjórn í dag yfirlýsingu EFTA-ríkjanna um sérstöðu Íslands í raforkumálum.
Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti fyrir ríkisstjórn í dag yfirlýsingu EFTA-ríkjanna um sérstöðu Íslands í raforkumálum.
Sameiginleg yfirlýsing Íslands, Noregs og Liechtenstein um sérstöðu Íslands á raforkumarkaði ESB var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kynnti yfirlýsinguna en í henni er undirstrikað að raforkukerfi Íslands sé einangrað kerfi og sé ekki tengt raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis ESB.

„Stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, sérstaklega þau sem varða viðskipti og gunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, hafa ekki gildi eða raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar,“ þetta kemur fram í yfirlýsingunni sem greint er frá á vef Stjórnarráðs Íslands.

Ítrekað er í yfirlýsingunni að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna á orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa milli ríkjanna og orkumarkaðar ESB sé alltaf í þeirra höndum.

Þá er tekið fram í textanum að ef raforkukerfin yrðu samtengd í framtíðinni og ágreiningsmál sem varða Ísland kæmu upp myndi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) úrskurða um þau mál en ekki samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER). Samskonar fyrirkomulag er nú þegar til staðar í Noregi og Liechtenstein og er það í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.


Tengdar fréttir

Ekki ástæða til að fresta þriðja orkupakkanum fram á haust

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, telur ekki raunhæft að verða við kröfu um að fresta afgreiðslu þriðja orkupakkans fram á haust. Hún segist telja að meirihlutastuðningur sé við málið í utanríkismálanefnd.

Orkan okkar andvíg gegnsæi um orkuverð

Frosti Sigurjónsson, segir ekki til hagsbóta að auka gegnsæi um raforkuverð. Landsvirkjun eigi að nýta upplýsingaleynd í samningum. Forstjóri Landsvirkjunar segir stóriðju helst hafa hag af því að innleiða ekki orkupakkann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×