Innlent

Fjölmiðlafrumvarpið stendur í Sjálfstæðisflokknum

Jakob Bjarnar skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Frumvarp hennar um fjölmiðla stendur í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Frumvarp hennar um fjölmiðla stendur í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur haft áform uppi um að mæla fyrir frumvarpi um fjölmiðla en afar ólíklegt er að frumvarpið verði að lögum á vorþinginu. Atriði í frumvarpinu eru seig undir tönn og erfiður biti fyrir nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins að kyngja.

Fjölmiðlafrumvarpið er stjórnarmál og hefur ríkisstjórnin samþykkt það fyrir sína parta. Þaðan er svo málinu vísað til þingflokkanna og hafa þingflokkar VG og Framsóknarflokks samþykkt það. Hins vegar stendur frumvarpið í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa gefið það út að ekki sé unnt að afgreiða það vegna þess að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hefur verið staddur erlendis. En, víst er að ef málið væri óumdeilt og runnið ljúflega niður hefði það ekki verið fyrirstaða í sjálfu sér.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að miðlar á frjálsum markaði verði styrktir. Upphæðin sem nefnd hefur verið í því sambandi er 350 milljónir króna. Víst er að það mun ekki bylta erfiðri rekstrarstöðu íslenskra fjölmiðla sem lengi hafa átt á brattann að sækja, nema þá hugsanlega smærri miðlum. Má í því samhengi benda á að bókaútgáfa í landinu, sem er umtalsvert minni atvinnugrein, var styrkt um 400 milljónir árlega með nýlegum lögum. En, í prinsippinu þykir nokkrum þingmönnum það skjóta skökku við að miðlar á markaði njóti ríkisstyrkja. Þá segja heimildir Vísis að þeim þyki frumvarpið til þess fallið að ekki sé tekið með afgerandi hætti á stöðu Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði.

Þó er gert er ráð fyrir því að þingflokkur Sjálfstæðiflokksins afgreiði málið fyrir sitt leyti á mánudag. Þá hugsanlega með fyrirvörum. Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið verði að lögum á vorþinginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×