„Það er með öllu óskiljanlegt hversu oft ökumenn reyna að troða sér fram hjá lokunum í umdæminu og skiptir þá engu þótt um vettvang slyss sé að ræða. Þetta var því miður raunin enn eina ferðina í gærdag,“ segir í stöðuuppfærslunni en vegna alvarleika slyssins sem varð í gær var ljóst að setja þurfti upp lokanir á veginum.
Þá kemur fram að það hafi verið greinilegt að vegurinn væri lokaður, bæði bílar og bifhjól lögreglunnar voru á svæðinu með blikkandi ljós en þrátt fyrir það reyndu ökumenn að komast hjá lokununum og tókst nokkrum ætlunarverkið þar til þeir neyddust til að nema staðar við slysstaðinn.
Lögreglan segir háttsemi þessara ökumanna vera með öllu ólíðandi og biðlar til þeirra að hugsa sinn gang þegar kemur að hegðun sinni í umferðinni. Virði menn ekki lokanir geti slíkt skapað frekari hættu á vettvangi.