Fótbolti

Augsburg vill framlengja við Alfreð sem er að jafna sig á meiðslum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji og framherji Augsburg, er að jafna sig á erfiðum meiðslum en hann gekkst undir aðgerð á dögunum.

Alfreð ræddi við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem þeir spjölluðu meðal annars um meiðslin.

„Ég er enn ekki byrjaður að æfa á fullu og ég er í þykkum skó til þess að verja ökklann á mér eftir aðgerðina. Ég er í því í tvær vikur í viðbót og get svo farið að gera meira,“ sagði Alfreð í kvöld.

„Þetta var stopp-start tímabil. Ég spila fyrstu fimm og meiðist svo lítil meiðsl hér og það. Það tekur mann úr ryðma og það þekkja það allir sem hafa verið meiddir að það tekur af þér.“

„Ég verð að horfa á það jákvæða og að skora tíu mörk í einni af toppdeildunum er alltaf afrek. Það er það sem ég tek með mér og byggi mig upp núna að þetta gerist ekki oftar.“

Alfreð á eitt ár eftir af samningi sínum hjá þýska liðinu.

„Þeir hafa tilkynnt mér það að þeir vilja framlengja samninginn. Það verður að koma í ljós á næstu vikum hvort við náum samkomulagi. Annars er einn fókus núna og það er að ná sér heilum,“ sagði Alfreð.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan þar sem Alfreð ræðir meira um meiðslin, landsliðið og meira til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×