Fótbolti

Gengu af velli og neituðu að spila eftir rifrildi um VAR

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Myndbandsdómgæslutækin voru á staðnum en virkuðu ekki
Myndbandsdómgæslutækin voru á staðnum en virkuðu ekki vísir/getty
Úrslitaleikur afrísku Meistaradeildarinnar var flautaður af eftir rifrildi yfir myndbandsdómgæslu.

Wydad Casablanca og Esperance mættust í seinni úrslitaleiknum í morgun. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Í honum var notast við myndbandsdómgæslu en í seinni leiknum virkaði tæknin ekki, þó öll tæki og tól hafi verið sett upp við hliðarlínuna.

Leikmenn liðanna vissu ekki að myndbandsdómgæslan virkaði ekki, þó dómararnir hafi vitað það, eftir því sem kemur fram í frétt BBC.

Esperance var 1-0 yfir í leiknum, 2-1 samanlagt, þegar Walid El Karti skoraði skallamark fyrir Wydad. Það var hins vegar dæmt af vegna brots.

Leikmenn Wydad vildu að dómarinn nýtti sér myndbandsdómgæsluna og var leikurinn stopp í hálftíma á meðan leikmennirnir rifust við dómarann. Þeir gengu svo á endanum af velli og neituðu að spila leikinn.

Stuðningsmenn í stúkunni þurftu alls að bíða í 95 mínútur þar til það var staðfest að dómarinn hefði flautað leikinn af og dæmt Esperance sigurinn.

Wydad gæti átt yfir höfði sér tveggja ára bann frá Afríkukeppninni vegna atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×