Körfubolti

Durant og Leonard vilja semja við sama liðið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Verða þessir tveir liðsfélagar næsta vetur?
Verða þessir tveir liðsfélagar næsta vetur? vísir/getty
Kevin Durant og Kawhi Leonard hafa rætt það sín á milli að taka höndum saman og semja við sama liðið fyrir komandi tímabil í NBA deildinni í körfubolta.

Félagsskiptaglugginn í NBA deildinni opnar í kvöld og tveir heitustu bitarnir á markaðnum eru Durant og Leonard. Adrian Wojnarowski, aðalblaðamaður ESPN í málum tengdum NBA, segir líklegast að þeir félagar gætu spilað saman hjá New York Knicks eða Los Angeles Clippers.





Durant er sagður ætla að funda með fulltrúum Knicks og Clippers ásamt forráðamönnum Brooklyn Nets og Golden State Warriors. Durant hefur verið hjá Warriors síðan 2016 og orðið með þeim NBA-meistari tvisvar.

Durant sleit hásin í leik 5 í úrslitarimmu Warriors og Toronto Raptors í vor og er búist við því að hann verði frá nær allt næsta tímabil.

Leonard ætlar einnig að ræða við Knicks og Clippers auk þess sem dagbók hans inniheldur fundi við Los Angeles Lakers og Toronto Raptors. Leonard kom til Raptors fyrir síðasta tímabil og varð NBA-meistari með liðinu í vor.

Ef Clippers ætla að fá tvíeykið til sín þá þyrfti liðið að losa sig við Danilo Gallinari til þess að búa til pláss. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum og ætti ekki að vera erfitt fyrir Clippers að gera hann spennandi valkost, sér í lagi þar sem þeir eiga nokkra framtíðarvalrétti í nýliðavalinu til þess að bæta við.

Knicks þarf hins vegar ekkert að gera þar sem innan þeirra herbúða eru tvö laus pláss. Durant hefur verið mikið orðaður við Knicks í vor og virtist svo gott sem kominn til New York þar til hann sleit hásin og málin flæktust aðeins.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×