Innlent

Segir að hlusta verði á viðvörunarorð þess efnis að verðmæti bankanna geti rýrnað á næstu árum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/vilhelm
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir óhjákvæmilegt að ráðast í sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum tveimur. Hlusta verði á viðvörunarorð þess efnis að verðmæti bankanna geti rýrnað á næstu árum.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bindur vonir við að ráðist verði í sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbanka.

„Ég held að það sé verkefni sem er óhjákvæmilegt að fara í. Ég geri mér vonir um að það verði hafist handa við sölu á eignarhlutum ríkisins fyrir lok þessa kjörtímabils. Það þýðir á næsta ári að öllum líkindum,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir verkefnið nauðsynlegt í ljósi breytinga á fjármálakerfinu.

„Það er ekki skynsamlegt fyrir ríkið að binda fjármuni upp á 400 og eitthvað milljarða í fjármálakerfi allra síst á komandi árum. Við vitum að hér verða gríðarlegar breytingar á fjármálakerfinu og hugmyndir okkar um rekstur banka munu breytast hér verulega og það er ekki hlutverk ríkisins að taka þátt í því,“ sagði Óli Björn.

Í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að ekki hægt að útloka að verðmæti bankanna geti rýrnað á næstu árum.

„Ég held að það séu viðvörunarorð sem menn eigi að hlusta á. Bjarni er ekki sá fyrsti sem vekur athygli á því að það er ekki sjálfgefið að verðmæti hlutabréfa ríkisins í bönkunum haldist eða hækki á komandi árum. Það eru líkur á því að það kunni að lækka, að minnsta kosti á meðan ríkið heldur um. Hins vegar geta einstaklingar og einstaklingar hafa sýnt það, ekki bara í bankakerfinu víða um heim, heldur líka bara í eignarhaldi á öðrum fyrirtækjum að þeim tekst betur að ávaxta sitt heldur en ríkið,“ sagði Óli Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×