Fótbolti

Nýi Chelsea-maðurinn skaut bandaríska landsliðinu í úrslitaleik Gullbikarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Pulisic fagnar öðru marka sinna í nótt.
Christian Pulisic fagnar öðru marka sinna í nótt. AP/Mark Zaleski
Bandaríkin og Mexíkó spila til úrslita um Gullbikarinn en það var ljóst eftir 3-1 sigur Bandaríkjanna á Jamaíka í seinni undanúrslitaleiknum í nótt.

Gullbikarinn er keppni landsliða Norður- og Mið-Ameríku og er samskonar keppni og Evrópukeppnin og Suðurameríkukeppnin.

Christian Pulisic er nýjasti meðlimur Chelsea-liðsins og hann minnti á sig með tveimur mörkum í leiknum.

Leikurinn var óvenju langur því gera þurfti 90 mínútna hlé á honum vegna slæms veðurs. Eftir fimmtán mínútna leik voru liðin kölluð af velli vegna eldinga.  





Þetta er annar Gullbikarinn í röð sem bandaríska landsliðið fer alla leið og liðið getur nú varið titilinn sinn á sunnudaginn en úrslitaleikurinn fer fram á Soldier Field í Chicago.

Bandaríska liðið var komið yfir þegar gera þurfti hlé á leiknum. Weston McKennie kom Bandaríkjunum í 1-0 strax á áttundu mínútu.

Christian Pulisic kom Bandaríkjunum síðan í 2-0 á 52. mínútu áður en Shamar Nicholson minnkaði muninn fyrir Jamaíku sautján mínútum síðar. Það var því smá spenna í leiknum á lokakaflanum.

Pulisic var hins vegar ekki hættur og innsiglaði sigurinn með þriðja markinu og öðru marki sínu en þá voru aðeins þrjár mínútur til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×