Fótbolti

Messi hefur valdið sjálfum sér vonbrigðum á Copa America

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Getty/ Bruna Prado
Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins, er þessa dagana að elta langþráðan titil með argentínska landsliðinu, en hefur samt ekki verið allt of sannfærandi á Copa America. Hann viðurkennir það meira að segja sjálfur í viðtölum við fjölmiðla.

Argentínska landsliðið hefur spilað fjóra leiki í Suðurameríkukeppninni í Brasilíu en sigrar í tveimur síðustu leikjum hafa nægt liðinu til að komast í undanúrslit keppninnar. Liðið fékk aðeins eitt stig í fyrstu tveimur leikjunum en rétt skreið inn í átta liða úrslitin með sigri í síðasta leik.

Messi er bara með eitt mark í þessum fjórum leikjum og hefur enn ekki náð því að leggja upp mark fyrir félaga sína í liðinu. Þetta eru frekar óvenjulegar tölur hjá þessum magnaða leikmanni.





„Þetta er ekki mín besta Copa America. Ég er ekki að spila eins vel og ég vonaðist eftir,“ sagði Lionel Messi eftir sigurinn á Venesúela í átta liða úrslitunum.

„Það mikilvægasta er að við unnum leikinn,“ sagði Lionel Messi en þeir Lautaro Martinez og Giovani Lo Celso skoruðu mörk liðsins í 2-0 sigri.

Eina mark Messi á mótinu kom í 1-1 jafnteflisleik á móti Paragvæ og markið skoraði hann úr vítaspyrnu.

Sigur Argentínumanna þýðir að liðið tryggði sér undanúrslitaleik á móti heimamönnum í Brasilíu. Argentínskir blaðamenn hafa líka verið vonsviknir þegar kemur að frammistöðu besta leikmanns liðsins.





„Framlag Messi inn á vellinum er lífsnauðsynlegt fyrir liðið. Ef þið gætuð síðan séð hvað hann gefur mikið af sér í búningsklefanum þá myndu þið örugglega sjá þetta öðruvísi. Ég fullvissa ykkur um að það er frábært að hafa hann hérna,“ sagði Lionel Scaloni, þjálfari Argentínu.

„Það er eina sem hægt er að segja um Leo er að hann er besti knattspyrnumaður heims,“ bætti Scaloni við.

Lionel Messi hefur alls skorað 68 mörk og gefið 43 stoðsendingar í 134 leikjum fyrir argentínska landsliðið. Hann er langmarkahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi og er jafnframt í þriðja sætið yfir þá leikjahæstu á eftir Javier Mascherano (147 leikir) og Javier Zanetti (143).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×