Enski boltinn

Lampard þarf hvorki að mæta í vinnuna í dag né á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard á hliðarlínunni sem knattspyrnustjóri Derby County.
Frank Lampard á hliðarlínunni sem knattspyrnustjóri Derby County. Getty/Harriet Lande
Derby County ætlar að gefa knattspyrnustjóra sínum frí í dag og á morgun. Frank Lampard mun fá þessa tvo daga til að ganga frá samning sínum við Chelsea.

Allt bendir því til þess að Frank Lampard snúi aftur á Stamford Bridge og verði næsti knattspyrnustjóri Chelsea. Hann mun þar taka við starfi Maurizio Sarri sem samdi við Juventus á dögunum.

Það er ekki bara Lampard sem verður fjarverandi frá æfingum Derby næstu tvo daga heldur einnig aðstoðarmaður hans Jody Morris. Jody Morris mun væntanlega fylgja Lampard yfir til Chelsea.





Derby County hefur gefið Chelsea leyfi til að tala við Frank Lampard en enska úrvalsdeildarfélagið mun í raun „kaupa“ knattspyrnustjórann af Derby.

Derby sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kemur fram að Derby hafi gefið Lampard frí í vinnuni svo hægt sé að ganga frá þessu sem fyrst. Derby mun jafnframt herða leit sína að nýjum knattspyrnustjóra.

Derby County flýgur síðan til Bandaríkjanna á fimmtudaginn en liðið verður í æfingabíðum á Flórída þar sem það undirbýr sig fyrir komandi tímabil í ensku b-deildinni.

Leikmenn Derby County munu vera í þolæfingum fyrstu daga undirbúningstímabilsins og fjarvera knattspyrnustjórans ætti því ekki að hafa mikil áhrif.

Frank Lampard var leikmaður Chelsea í þrettán ár og er ein af stærstu goðsögnunum í sögu félagsins. Hann lék alls 648 leiki fyrir félagið og vann ellefu stóra titla en Chelsea keypti hann frá West Ham fyrir ellefu milljónir punda árið 2001.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×