Fótbolti

Ljótur sigur hjá bandaríska fótboltalandsliðinu í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Weston Mckennie og Christian Pulisic fagna sigurmarkinu í nótt.
Weston Mckennie og Christian Pulisic fagna sigurmarkinu í nótt. Getty/Patrick Smith
Bandaríska fótboltalandsliðið rétt marði 1-0 sigur á smáríkinu Curacao í átta liða úrslitum Gullbikarsins í nótt. Bandaríkin er því í undanúrslitum ásamt Mexíkó, Haítí og Jamaíku.

Bandaríska landsliðið fékk harða gagnrýni fyrir frammistöðu sína í nótt en bandarísku blaðamennirnir voru allt annað en hrifnir af leik liðsins.

Christian Pulisic, nýr leikmaður Chelsea, var með fyrirliðaband bandaríska liðsins og hann var tvisvar nálægt því að skora á upphafsmínútunum.

Pulisic lagði síðan upp mark fyrir Weston McKennie á 25. mínútu leiksins. Það reyndist vera eina mark leiksins.

Zack Steffen, markvörður bandaríska liðsins, þurfti síðan að taka á sínum stóra sínum til að koma í veg fyrir jöfnunarmark. Zack Steffen hélt hreinu í fjórða leiknum í röð í keppninni en þessi 24 ára markvörður spilar með Columbus Crew í bandarísku deildinni.

Bandaríkin mæta Jamaíka í undanúrslitum en í hinum leiknum mætast Mexíkó og Haítí. Gullbikarinn er keppni þjóða í Norður- og Mið-Ameríku og er sams konar keppni og Evrópu- og Suður-Ameríkukeppni landsliða.

Curacao skildi eftir El Salvador og Hondúras í sínum riðli en liðið tryggði sig áfram með því að ná 1-1 jafntefli við Jamaíka í lokaleik riðlakeppninnar.

Curacao er í 79. sæti heimslista FIFA eða 49 sætum neðar en Bandaríkin. Curacao er eyríki í Karíbahafi, undan strönd Venesúela. Þetta var hluti af hollensku Vestur-Indíum en fékk sjálfsstjórn árið 2010 þegar hollensku Antillaeyjar voru leystar upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×