Skoðun

Hverjir geta keypt?

Logi Einarsson skrifar
Samkvæmt tölum frá Íbúðalánasjóði fer hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði hækkandi, sem þýðir að fleiri hafa getað lagt fyrir eða fengið aðstoð til fyrstu kaupa. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fjallaði um þetta í Fréttablaðinu í gær og þakkar aðgerðum ríkisstjórnarinnar árangurinn.

Það gleður mig auðvitað að fleiri geti keypt sína fyrstu íbúð – en hverjir eru það sem geta keypt og hverjir ekki?

Húsnæðismál hafa verið í öngstræti síðustu ár. Ungt og/eða efnalítið fólk hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn á sama tíma og skortur hefur verið á leiguíbúðum og leiguverð of hátt. Ofan á það bætist að ekki er nægjanlegt framboð af félagslegu húsnæði sveitarfélaga fyrir þau allra efnaminnstu. Einn hópur hefur alveg setið eftir: fólkið sem er með lægstar tekjur og á þ.a.l. erfitt með að fóta sig á húsnæðismarkaði, en er þó ekki nægilega efnalítið til að fá úthlutað félagslegu húsnæði. Allt frá því að flokkur Lilju stóð að því óhappaverki með Sjálfstæðisflokknum að leggja niður verkamannabústaðakerfið. Aðgerðir síðustu ríkisstjórna hafa gagnast þeim mest sem þurfa síst á hjálp að halda; tekjuhæstu og eignamestu landsmönnunum. Þeir síðarnefndu fengu m.a. bróðurpart af 72 milljörðum í sinn hlut með „Leiðréttingunni“ svokölluðu og séreignarsparnaðarleiðin gagnast tekjuháum best. Auk þess gefst þeim efnameiri kostur á hagstæðari lánum en öðrum hjá lífeyrissjóðum landsins.

Eignaójöfnuður hefur aukist á Íslandi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa frekar aukið þá misskiptingu. Eftir sitja fjölskyldur með lágar og meðaltekjur, þær sem helst þurfa á aðstoð að halda við að komast inn á fasteignamarkaðinn, úrræðalausar á óstöðugum leigumarkaði. Millitekjufólk sem nær nokkurn veginn að brúa bilið hefur auk þess ekki sama aðgang og þeir best stöddu að hagstæðustu lánunum sem veita bestu mögulegu vextina.

Ég fagna því auðvitað að fleira ungt fólk geti keypt húsnæði og óska því velfarnaðar. En við þurfum annars konar ríkisstjórn, sem gætir að því að fleiri hópar búi við húsnæðisöryggi en þeir best stöddu.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×