Fótbolti

Aron Einar: Gerðum allt sem við ætluðum að gera

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var nokkuð sáttur með sína menn eftir 3-0 sigur Íslands á Moldóvu í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvelli í dag.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með stigin þrjú. Gerðum þetta agað,“ sagði Aron Einar við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn.

„Mér fannst við byrja hvorugan hálfleikinn vel, en við unnum okkur inn í þá og sýndum gæði. Við ætluðum okkur að kæfa leikinn, við gerðum allt rétt, vorum að spila boltanum, finna Kolla [Kolbein Sigþórsson] í loftinu og vinna seinni boltann.“

„Við gerðum allt sem við ætluðum okkur að gera.“

Leikurinn var fyrirfram sagður skyldusigur af flestum í samfélaginu, en leikir þar sem ætlast er eftir sigri geta oft verið erfiðir.

„Svona leikir geta orðið bananahýði en við erum orðnir reynslumiklir og kunnu má þetta. Við vitum hvað þarf að gera til þess að ná í úrslit.“

„Þetta var heilt yfir solid leikur, við hleyptum þeim ekkert á okkur nema aðeins í byrjun. Þá virkuðum við aðeins brothættir, en það vakti okkur. Var kannski fínt að við fengum þessa pressu á okkur,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×