Enski boltinn

Southgate þarf ekki að velja á milli Alexander-Arnold og Wan-Bissaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Wan-Bissaka í leik með Manchester United  á tímabilinu.
Aaron Wan-Bissaka í leik með Manchester United á tímabilinu. Getty/Matthew Ashton
Bakvörður Manchester United hefur dregið sig út úr enska landsliðshópnum vegna bakmeiðsla.

Aaron Wan-Bissaka hefur spilað vel í fyrstu leikjum sínum með Manchester United en ekkert verður að því að hann fái tækifæri með enska landsliðinu í þessu landsleikjahléi.

Gareth Southgate valdi Aaron Wan-Bissaka í hópinn fyrir leikina á móti Búlgaríu og Kósóvó í undankeppni EM 2020 en Wan-Bissaka varð að draga sig út úr hópnum vegna bakmeiðsla.





Aaron Wan-Bissaka spilar því ekki fyrstu A-landsleiki sína í þessu verkefni en hann á að baki þrjá leiki fyrir 21 árs landslið Englendinga.

Í tilkynningu frá enska knattspyrnusambandinu segir að Wan-Bissaka hafi yfirgefið hópinn og snúið aftur heim til síns félags.

Southgate ákvað að kalla ekki á nýjan leikmann í staðinn en í hópnum eru tveir aðrir hægri bakverðir eða þeir Trent Alexander-Arnold frá Liverpool og Kieran Trippier, fyrrverandi leikmaður Tottenham og núverandi leikmaður Atlético Madrid.

Það er ljóst að það er mikil samkeppni um hægri bakvarðarstöðu enska landsliðsins í dag. Kyle Walker hjá Manchester City komst ekki einu sinni í hópinn því Gareth Southgate valdi frekar Wan-Bissaka í fyrsta sinn.

Enska landsliðið spilar við Búlgaríu á Wembley á laugardaginn og mætir síðan Kósóvó þremur dögum síðar á St Mary's, heimavelli Southampton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×