Körfubolti

Stjörnukaninn missti samning í Frakklandi af því að hann „minnkaði“ um 6 sm í flugvélinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamar Akoh í baráttunni undir körfunni.,
Jamar Akoh í baráttunni undir körfunni., Getty/Jamie Squire
Bandaríski körfuboltamaðurinn Jamar Akoh ætlaði að spila í Frakklandi í vetur en mun í staðinn spila með Stjörnunni í Domino´s deild karla í körfubolta á komandi tímabili.

Stjörnumenn kynnti nýjan bandarískan leikmann sinn í dag en Jamar Akoh spilaði með University of Montana í bandaríska háskólaboltanum síðasta vetur.

Jamar Akoh hafði gert samning við franska úrvalsdeildarliðið Chorale Roanne Basket fyrr í sumar en missti samninginn sinn eftir aðeins tvær vikur. Það má kenna þar um röngum upplýsingum um hæð hans.

Forráðamenn Chorale Roanne héldu að þeir væri að fá leikmann sem var 203 sentímetrar á hæð en reyndist síðan bara vera 197 sentímetrar þegar hann lenti í Frakklandi. Þjálfarinn vildi stóran miðherja og Akoh var sendur heim.

Staðarblaðið Le Progres sagði frá ákvörðun félagsins sem sagði upp samningi sínum við Jamar Akoh og fann annan bandarískan miðherja, Johndre Jefferson, sem er 208 sentímetrar.

Jamar Akoh var hins vegar með fínustu tölur í bandaríska háskólaboltanum með University of Montana þar sem hann var með 15,5 stig og 8,7 fráköst á lokaári sínu. Hann var hins vegar aðeins með fimm varin skot á 437 mínútum og þar var „sentímetraleysið“ kannski að hrjá hann.



Jamar Akoh í leik með University of Montana.Getty/Jamie Squire



Fleiri fréttir

Sjá meira


×