Fyrirspurn hans laut meðal annars að gagnrýni Blaðamannafélagsins frá því fyrr á árinu og varðaði úrskurði fjölmiðlanefndar og álit nefndarinnar er varða umfjallanir fjölmiðla vegna kvartana sem borist höfðu nefndinni á grundvelli 26. greinar fjölmiðlalaga. Sú grein laganna kveður meðal annars á um að fjölmiðlar skuli „halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi.“
Sjá einnig: Draga fulltrúa sinn úr starfi fjölmiðlanefndar
„Þetta var býsna beinskeytt gagnrýni sem endaði nú á því að Blaðamannafélagið dró fulltrúa sinn út úr fjölmiðlanefnd,“ sagði Kolbeinn á Alþingi í dag. Í yfirlýsingu frá Blaðamannafélaginu á sínum tíma var til að mynda vísað til tveggja nýlegra álita nefndarinnar sem snúist hafi gagngert um vinnubrögð og fréttamat blaðamanna í einstökum málum.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra svaraði á þá leið að hún teldi vissulega vera tilefni til þess. „Er varðar fyrirspurn háttvirts þingmanns þá hef ég, já, í hyggju að endurskoða fjölmiðlalögin meðal annars vegna þessara ábendinga,“ sagði Lilja.
„Að mínu viti er það mjög bagalegt að Blaðamannafélag Íslands og fjölmiðlanefnd hafi staðið í þessum deilum og segja má að það hafi dregið svolítið til tíðinda vegna þessa. Við þurfum að skýra, þurfum að hafa sama skilning og sömu nálgun á 26. greinina þannig að ég svara því játandi. Ég hef í hyggju að endurskoða þessi lög.“
Það sé meðal annars vegna þeirra hröðu breytinga sem séu að eiga sér stað á fjölmiðlamarkaði, meðal annars vegna tæknibreytinga. „Við þurfum að vera á tánum,“ sagði Lilja.
Líkt og fjallað hefur verið um hyggst ráðherra einnig leggja fram frumvarp á næstunni sem meðal annars kveður á um beina ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla en afar skiptar skoðanir eru uppi um þau áform, ekki síður meðal þingmanna stjórnarflokkanna.