Alfreð sat fyrir svörum á blaðamannafundi landsliðsins á Laugardalsvelli í dag ásamt Hamrén en fastlega má reikna með því að Alfreð fái að byrja gegn Andorra á morgun.
Á fundinum var hann spurður að því hvort hann hefði fengið einhverja ónotatilfinningu þegar liðið gegn Frökkum var tilkynnt en Alfreð mátti lengi sætta sig við bekkjarsetu með landsliðinu áður en hann festi sig í sessi í byrjunarliðinu.
„Já og nei. Staðan er kannski aðeins öðruvísi núna þar sem ég er rétt að komast af stað aftur eftir meiðsli. Auðvitað er maður alltaf ósáttur þegar maður byrjar ekki inná, það mun aldrei breytast, sama hvort það er með landsliði eða félagsliði,“ sagði Alfreð og hélt áfram.
„Staðan var bara þannig í þessum leik. Erik taldi þetta vera besta liðið til að byrja inná og ég virði þá ákvörðun þó ég sé ekki sammála henni.“
„Það er bara sama klassíkin. Þegar ég fæ mín tækifæri verð ég bara að vera klár og sanna það, eins og síðustu ár þegar ég hef verið heill, að ég geti nýst íslenska landsliðinu,“ sagði Alfreð.