Innlent

Lyklar virki alls staðar

Ari Brynjólfsson skrifar
Hleðslustöðvar fyrir rafbíla má finna víða.
Hleðslustöðvar fyrir rafbíla má finna víða. Fréttablaðið/Valli
Rafbílasamband Íslands er tilbúið að gefa eftir kröfu um að ekki þurfi aðgangslykla frá orkufyrirtækjum til að hlaða rafbíla í skiptum fyrir að lykill frá einu fyrirtæki virki á allar hleðslustöðvar. Orkufyrirtækin hafa nú skilað inn umsögnum um breytingar á reglugerð um raforkuviðskipti.

Í reglugerðinni er ákvæði um að allar hleðslustöðvar séu aðgengilegar almenningi. Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, sem á Orku náttúrunnar, segir að það þýði að hægt sé að halda núverandi fyrirkomulagi, þar sem þarf sérstakan lykil frá ON til að hlaða. Dýrt sé að koma upp búnaði til að lesa greiðslukort.

Í umsögn Ísorku segir hins vegar að það þurfi ekki að ráðast í dýrar breytingar til að gera hleðslustöðvum kleift að lesa greiðslukort, til þess þurfi aðeins vottaðar hugbúnaðarlausnir. Vilja þeir að það sé gert skýrt að rafbílaeigendur geti hlaðið bílana sína án þess að þurfa að skrá sig fyrir lykli.

Jóhann G. Ólafsson, formaður Rafbílasambandsins, segir að þar sé vilji til að miðla málum. „Við erum alveg sátt við að hver og einn gefi út sinn lykil, en þá verða þeir að ganga alls staðar,“ segir Jóhann. Slíkt sé nú í undirbúningi í Bretlandi og víðar í Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×