Tottenham afgreiddi Cardiff á hálftíma

Anton Ingi Leifsson skrifar
Son og Sissoko fagna marki Son.
Son og Sissoko fagna marki Son. Vísir/Getty
Tottenham urðu engin mistök á er liðið heimsótti Cardiff heim í síðasta leik dagsins en Tottenham vann 3-0 sigur. Þeir afgreiddu leikinn í fyrri hálfleik.

Tottenham tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni fyrr í vikunni er liðið tapaði gegn Wolves á heimavelli 3-1 eftir að hafa komist 1-0 yfir.

Fyrsta markið kom eftir rúmar tvær mínútur er Harry Kane skoraði skrautlegt mark en boltanum var einfaldlega skotið í Kane og í netið. Markaskorari af guðs náð.

Christian Eriksen tvöfaldaði svo forystuna á tólftu mínútu. Eftir hraða sókn fékk Daninn boltann fyrir utan teiginn og skaut hann boltanum laglega í nærhornið framhjá varnarlausum Neil Etheridge.

Veislu Tottenham í fyrri hálfleik var ekki lokið því á 26. mínútu skoraði Son-Heung min þriðja markið en hann afgreiddi færið vel eftir að hafa fengið boltann inn á vítateig Cardiff.

Tottenham 3-0 yfir í hálfleik og lokatölur urðu 3-0 en gestirnir frá Lundúnum slökuðu aðeins á klónni í síðari hálfeik en sigldu sigrinum örugglega í hús.

Tottenham er í öðru sætinu með 48 stig en í þriðja sætinu er Manchester City með 47 stig. Liverpool er á toppnum með 54 stig en Liverpool og Man. City mætast á fimmtudaginn.

Cardiff er í sextánda sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan fallsæti en Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn á miðjunni hjá Cardiff.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira