Erlent

Stjórnin féll í Færeyjum

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Frá Þórshöfn.
Frá Þórshöfn. Fréttablaðið/GVA
Stjórnarflokkarnir í Færeyjum misstu meirihluta sinn í þingkosningunum sem fram fóru á laugardag. Fengu þeir 15 þingsæti af 33 en höfðu áður 17. Sigurvegari kosninganna er Fólkaflokkurinn sem fékk 24,5 prósent atkvæða og bætti við sig tveimur þingsætum.

Formaður Fólkaflokksins, Jørgen Niclasen, sagði í samtali við færeyska vefmiðilinn in.fo að úrslit kosninganna væru draumi líkust. Hann hefði gert ráð fyrir að fá sjö þingmenn en flokkurinn fékk átta kjörna. Flokkurinn bætti við sig 5,6 prósentustigum.

Niclasen sagðist telja eðlilegt að stjórnarandstöðuflokkarnir tækju nú við og mynduðu nýja ríkisstjórn.

Aksel V. Johannesen, leiðtogi Jafnaðarmanna, er þó ekki alveg búinn að gefa upp á bátinn að halda í stjórnartaumana en hann hefur leitt ríkisstjórnina síðustu fjögur ár. Hann sagðist ætla að taka sér einn eða tvo daga í að kanna valkosti sína við stjórnarmyndun.

Jafnaðarmenn fengu næstflest atkvæði, eða 22,1 prósent, og sjö þingmenn kjörna. Sambandsflokkurinn, sem verið hefur í stjórnarandstöðu, fékk 20,3 prósent og einnig sjö þingmenn. Þjóðveldisflokkurinn, sem setið hefur í stjórninni með Jafnaðarflokknum, fékk 18,1 prósent og sex menn kjörna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×