Erlent

Kosningar gætu blasað við á Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Búast má við hörðum átökum á breska þinginu í vikunni en gert er ráð fyrir að stjórnarandstæðingar og uppreisnarmenn í Íhaldsflokknum leggi fram frumvarp til að stöðva útgöngu án samnings á morgun.
Búast má við hörðum átökum á breska þinginu í vikunni en gert er ráð fyrir að stjórnarandstæðingar og uppreisnarmenn í Íhaldsflokknum leggi fram frumvarp til að stöðva útgöngu án samnings á morgun. Vísir/EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er nú sagður íhuga að boða til skyndikosninga samþykki þingið frumvarp um að koma í veg fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings í vikunni. Áður hefur verið sagt frá því að Johnson hafi hótað þingmönnum Íhaldsflokksins bannfæringu fylgi þeir ekki flokkslínunni.

Nokkrir fyrrverandi ráðherra Íhaldsflokksins eru sagðir ætla að greiða atkvæði með þingmönnum Verkamannaflokksins og öðrum til að koma í veg fyrir að Johnson geti dregið Bretland úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings 31. október. Þingið ætlar að greiða atkvæði um frumvörp stjórnarandstöðunnar nú í vikunni.

Breska ríkisútvarpið BBC og fleiri breskir fjölmiðlar vísa til heimildarmanna um að Johnson ræði nú af alvöru við ráðgjafa sína um að blása til kosninga. Hann hafi boðað til óvænts ríkisstjórnarfundar klukkan 16:00 að íslenskum tíma í dag. Þá ætli hann sér að ræða við þingmenn Íhaldsflokksins síðdegis.

Næst á að kjósa til þings á Bretlandi árið 2022. Krefjist Johnson þess að kosningum verði flýtt þyrfti hann stuðning tveggja þriðju hluta þingheims. Fái hann slíkt samþykki réði hann hvenær kosið yrði en dagsetningin gæti orðið að stórpólitísku máli þar sem kosningarnar færu þá fram annað hvort rétt fyrir boðaða útgöngu úr Evrópusambandinu eða rétt eftir hana.


Tengdar fréttir

Blair segir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu vera einu leiðina

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu vera eina leiðina til að bæta ástandið þar í landi. Þá dró hann lögmæti úrgöngu Bretlands, án samnings, í efa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×