Mikilvægur sigur Everton | Ótrúleg endurkoma Fulham

Anton Ingi Leifsson skrifar
Richarlison fagnar í kvöld.
Richarlison fagnar í kvöld. vísir/getty
Everton vann afar mikilvægan 1-0 sigur á Huddersfield í kvöld en gengi Everton hefur verið brösótt upp á síðkastið. Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan leikinn í liði Everton.

Fyrsta og eina mark leiksins kom strax a þriðju mínútu er Richarlison skoraði eftir að boltinn datt fyrir hann eftir sprett Tom Davies.

Everton lék einum færri frá 66. mínútu er franski bakvörðurinn Lucas Digne fékk beint rautt spjald eftir að framherji Huddersfield var við það að sleppa einn í gegn.

Huddersfield náði ekki að jafna metin og lokatölur 1-0 sigur Everton sem er í áttunda sætinu með 33 stig en Huddersfield er á botninum með ellefu stig.

Fulham vann frábæran endurkomusigur gegn Brighton, 4-2, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik en Glenn Murray kom Brighton í 2-0 í fyrri hálfleik með tveimur mörkum.

Er þrettán mínútur voru búnar af síðari hálfleik var allt orðið jafnt en Calum Chambers og Aleksandar Mitrovic voru þá búnir að skora sitt hvort markið.

Mitrovic skoraði annað mark sitt og þriðja mark Fulham stundarfjórðungi fyrir leikslok og Luciano Vietto skoraði fjórða markið fjórum mínútum síðar. Lokatölur 4-2.

Fulham er nú með sautján stig í nítjánda sætinu en Brighton er í þrettánda sætinu með 26 stig.

Wolves vann svo 3-0 sigur á West Ham með tveimur mörkum frá Raul Jimenez og einu marki frá Romain Saiss. Wolves í sjöunda sætinu en West Ham í ellefta sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira