Fótbolti

Dramatík í MLS: Tók afsökunarbeiðni Zlatans ekki gilda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan gargar á Onuoha.
Zlatan gargar á Onuoha. vísir/getty
Nedum Onuoha, leikmaður Real Salt Lake, tók afsökunarbeiðni Zlatans Ibrahimovic, leikmanns Los Angeles Galaxy, ekki gilda eftir leik liðanna í MLS-deildinni í nótt. LA Galaxy vann leikinn, 2-1.

Zlatan skoraði sigurmark LA Galaxy þegar 14 mínútur voru til leiksloka. Eftir að hafa skorað hellti Svíinn sér yfir Onouha en hann eyddi drjúgum tíma í að brjóta á honum og ögra á meðan leiknum stóð.



Eftir leikinn fór Zlatan inn í klefa Real Salt Lake til að biðja Onuoha afsökunar. Englendingurinn vildi þó ekkert með afsökunarbeiðni Svíans hafa og eftir leikinn tjáði hann sig um framkomu hans við fjölmiðla.

„Hann kom til að biðjast afsökunar. Frá 60. mínútu talaði hann um að hann ætlaði að rústa mér og meiða mig í leiknum,“ sagði Onuoha.

„Þetta er andlit MLS-deildarinnar eins og hann segir sjálfur. En svona spilar hann. Þú segir þetta ekki á vellinum. Ég samþykki ekki afsökunarbeiðni hans. Þetta er óásættanlegt“ bætti Englendingurinn við.



Onuoha er uppalinn hjá Manchester City og lék 116 leiki með félaginu á sínum tíma. Hann var svo sjö tímabil í herbúðum QPR áður en hann gekk í raðir Real Salt Lake í september á síðasta ári.

Zlatan og félagar í LA Galaxy eru í 2. sæti Vesturdeildarinnar með 22 stig, einu stigi á eftir grönnunum í Los Angeles FC. Zlatan er næstmarkahæstur í deildinni með átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×