Fótbolti

Stór spurning og mörg svör

Benedikt Bóas skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen, leikmaður Real Madrid, er í hópnum sem kemur saman til æfinga í Safamýri í september.
Andri Lucas Guðjohnsen, leikmaður Real Madrid, er í hópnum sem kemur saman til æfinga í Safamýri í september. NordicPhotos/getty
Þorvaldur Örlygsson, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið hóp sem tekur þátt í landsliðs­æfingum dagana 2.-6. september á Framvelli. Þorvaldur valdi 26 stráka en þetta er liður í undirbúningi liðsins fyrir undankeppni EM 2020 ­13.-19. nóvember þar sem Ísland leikur í riðli með heimamönnum Belgum, Albaníu, og Grikklandi. Þrettán leikmenn eru atvinnumenn, þar á meðal Andri Lucas Guðjohnsen frá Real Madrid en restin spilar hér heima, meðal annars ungstirni Pepsi Max deildarinnar, Valgeir Valgeirsson.

Einn spilar í C-deildinni með Vestra, Þórður Gunnar Hafþórsson, en hann er kominn með 60 leiki í meistaraflokki þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára. Nýlegar fréttir af íslenskum atvinnumönnum sem fóru ungir út til að láta drauminn rætast sýna að þeir eru flestir staddir í varaliðum eða jafnvel bara fastir í unglingaliðum.

Þorvaldur segir að ekkert eitt rétt svar sé við þeirri spurningu hvort leikmenn eigi að fara út í atvinnumennsku til að æfa með unglinga- og varaliðum eða vera hér á Íslandi og spila fótbolta í meistaraflokki. „Þetta er spurning sem við erum endalaust að velta fyrir okkur og búnir að gera það í mörg ár. Frá mínum bæjardyrum séð þá finnst mér að ef strákar hafa tækifæri til að fara utan í góða klúbba sé erfitt að standa í vegi fyrir því. Við höfum séð það heppnast með betri leikmenn okkar og þá er það betra til lengri tíma en það er ekki algilt að það sé rétta aðferðin.

Ég bendi stundum á að fólk fer í mennta- eða háskóla og það gengur ekki alltaf upp þá braut sem viðkomandi fetar fyrst. Menn geta líka verið óheppnir í ákvörðunartöku. Ég held samt að þegar ungur drengur fær tækifæri til að fara utan, hvort sem það er í unglingaliðið eða b-lið þá er erfitt að standa í vegi fyrir honum. Stefna flestra er yfirleitt að ná langt í fótboltanum.

Miðað við fjöldann sem er að fara út að spila þá eru alltaf einhverjir sem koma heim, út af mismunandi hlutum. Að sama skapi eru margir sem ná að búa til góðan feril. Við erum ekki búnir að finna lausn á þessari gátu en það eru drengir að fara utan og leitast við að verða atvinnumenn og verða betri og við reynum að styðja þá eins vel og við getum.“

WORMS, GERMANY - MARCH 23: Maximilian Beier of Germany U17 is challenged by Isak Bergmann Johannesson of Iceland U17 during the UEFA Elite Round match between Germany U17 and Iceland U17 at EWR Arena on March 23, 2019 in Worms, Germany. (Photo by Alex Grimm/Getty Images for DFB)
Íslenska leiðin

Þorvaldur og Davíð Snorri Jónsson aðstoðarlandsliðsþjálfari völdu þrjá árganga til að koma saman á þessar æfingar sem er ekki algengt. Þrír eru fæddir 2003, 11 eru fæddir 2002 og afgangurinn er á elsta og síðasta árinu í U19, fæddir 2001. Þó nokkrir hafa fengið hlutverk í sínum liðum í Pepsi Max deildinni og nokkrir eru í stórum hlutverkum í sínum liðum í Inkasso. Þá er Ísak Bergmann kominn í aðallið Norrköping í Svíþjóð. „Yfirleitt erlendis er bara einn árgangur þar sem valið er úr stórum hópi stráka. Við erum aðeins öðruvísi og blöndum tveimur saman en okkur langaði að fá þarna inn alla þessa árganga saman í góða æfingaviku og teljum okkur heppna að fá bestu strákana á þessu aldursbili saman til æfinga. Það eru tveir landsliðsgluggar fram að mótinu í Belgíu og við vildum nota septembergluggann í æfingar.“

Liðið hefur síðustu tvö ár farið í þessum septemberglugga til Wales og Albaníu til að spila en fer þess í stað til Finnlands í næsta glugga og leikur þar æfingaleiki við heimamenn og Svía. „Við ákváðum að prófa þetta svona. Ég er þakklátur sambandinu fyrir að leyfa það því við teljum að við verðum betur undirbúnir fyrir komandi verkefni.“

WORMS, GERMANY - MARCH 23: Head coaches Michael Feichtenbeiner of Germany U17 and David Snorri Jonsson of Iceland U17 hug prior to the UEFA Elite Round match between Germany U17 and Iceland U17 at EWR Arena on March 23, 2019 in Worms, Germany. (Photo by Alex Grimm/Getty Images for DFB)
Fylgjast vel með

Þorvaldur er með 13 atvinnumenn í hópnum og því eðlilegt að spyrja hvort hann nái að fylgjast jafn mikið með þeim og hann vildi. „Við höfum ekki farið eins oft út og við viljum, það segir sig sjálft. En við höfum farið þegar við getum. Við erum í góðu sambandi við félögin og strákana sjálfa. Strákar fæddir 2002 hafa verið með mörg verkefni á síðasta ári og við þekkjum þá orðið ansi vel. Það væri ósk okkar að sjá meira en við sjáum leiki í gegnum nútímatækni.

Að sama skapi erum við að horfa á eins marga leiki og við komumst yfir hér heima. Þetta eru um 120-130 leikir sem við erum að horfa á hér heima frá meistaraflokki og niður í þriðja flokk. Við reynum að vera eins mikið á tánum og mögulegt er. Fylgjast með og fá upplýsingar. Við Davíð Snorri náum að mínu mati að fylgjast vel með.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×