Ástarsamband samfélagsmiðlastjörnunnar Kylie Jenner og rapparans Travis Scott var dauðadæmt frá byrjun, vegna skorts á skuldbingingarvilja. Það er að minnsta kosti það sem Esther Jenner, amma hinnar 22 ára gömlu Kylie Jenner, vill meina.
Hin 93 ára gamla Esther var til viðtals við The Sun á dögunum þar sem hún talaði meðal annars um sambandsslit Kylie og rapparans. Kylie og Travis Scott, sem réttu nafni heitir Jacques Bermon Webster II, höfðu átt í ástarsambandi frá árinu 2017, en því sambandi lauk fyrr á þessu ári. Saman eiga þau hina tæplega tveggja ára dóttur Stormi Webster.
Í viðtalinu sagðist hún telja að Webster hafi ekki litið sambandið við Kylie nógu alvarlegum augum, þar sem hann hefði ekki beðið hennar eftir að í ljós kom að hún bæri barn undir belti.
„Ungt fólk í dag, það heldur að það geti búið saman og stofnað fjölskyldu án þess að vera gift. Það hreinlega virkar ekki,“ er haft eftir Jenner.
