Skandinavíska flugfélagið SAS stefnir að því að fjölga áætlunarferðum á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar í vetur. Flugfélagið sækir í sig veðrið og hyggst bjóða upp á nærri daglegar brottfarir.
Þetta kemur fram í svari forsvarsmanna SAS við fyrirspurn blaðamanns Turista.is.
„Við erum glöð að sjá þennan virkilega góða áhuga á flugleiðinni,“ segir Mariam Skovfoged, blaðafulltrúi SAS.
Síðasta vetur flaug SAS á milli Íslands og Danmerkur þrisvar til fjórum sinnum í viku og því um mikla aukningu að ræða. Ætla má að aukningin sé sárabót þá sem sjá eftir lággjaldaflugfélaginu WOW Air sem varð gjaldþrota í lok mars og skildi eftir sig skarð á flugmarkaði.
Auk Kaupmannahafnarflugsins flýgur SAS á milli Íslands og höfuðborgar Noregs allt árið um kring. Í sumar stendur síðan til að fljúga á milli Keflavíkur og Stokkhólms.
Norska flugfélagið Norwegian tilkynnti í morgun að það hygðist hefja áætlunarflug á milli Íslands og Kanaríeyja í haust. Frá og með 30. október mun Norwegian fljúga tvisvar í viku frá Íslandi til Las Palmas og frá og með 27. október mun flugfélagið bjóða upp á flugferðir til Tenerife fimm sinnum í viku.
Fjölga ferðum á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar í vetur

Tengdar fréttir

Útlit fyrir verulegan samdrátt í flugi og sætaframboði í millilandaflugi á næstu mánuðum
Útlit er fyrir að flug um Keflavíkurflugvöll dragist saman um fjórðung og sætaframboð um tæp þrjátíu prósent frá maí til október borið saman við sama tímabil í fyrra. Isavia hefur hins vegar ekki gefið út nýja farþegaspá eftir fall WOW AIR sem flaug þriðju hverja flugferð á síðasta ári.

Norwegian bætir við ferðum til Las Palmas og Tenerife frá Íslandi
Fimm ferðir í viku til Tenerife.