Starfsgreinasamband Íslands segir miður að Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga, hafi borið sambandið þungum sökum sökum þegar samningsumboð sem Framsýn veitti SGS var afturkallað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem SGS sendi frá sér í dag vegna málsins.
Greint var frá því í gærkvöldi að Framsýn hefði samþykkt á fundi sínum að afturkalla samningsumboðið. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sagði í samtali við Mbl í gær að það væri mikill áhugi meðal félagsmanna Framsýnar að efna til samstarfs með stéttarfélögum á borð við Eflingu, VR og Verkalýðsfélögin á Akranesi og í Grindavík.
Í yfirlýsingu SGS segir að ákvörðun Framsýnar sé í samræmi við forræði einstakra félaga á sínum málum. Þá er tekið sérstaklega fram að sambandið myndi aldrei semja um kjararýrnun félagsmanna sinna.
„Það er miður að í tengslum við þessa samþykkt þurfi að bera félaga sína þungum sökum. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör okkar fólks, hvort sem það lýtur að vinnutíma, álagsgreiðslum eða öðrum þáttum. Í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hefur þessi afstaða komið fram með mjög sterkum og afdráttarlausum hætti og samninganefndarmönnum á að vera það algerlega ljóst. Það má minna á að Starfsgreinasambandið sleit viðræðum við SA vegna þessara þátta,“ segir í yfirlýsingu SGS.
„Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun ekki standa í skeytasendingum við félaga sína í fjölmiðlum. Verkefni okkar er að ná samningum um bætt kjör okkar fólks, við einbeittum okkur að því í samhljómi við félaga okkar í Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Grindavíkur.“
SGS segir miður að Framsýn beri sambandið þungum sökum

Tengdar fréttir

SGS hefur slitið viðræðum við SA
Fundur í kjaradeilunni hófst klukkan 11 í húsakynnum sáttasemjara.

SGS teiknar upp næstu skref og aðgerðir eftir viðræðuslit
Starfsgreinasambandið (SGS) sleit í gær kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA) eftir árangurslausan fund hjá ríkissáttasemjara. Aðgerðahópur SGS kemur saman í dag til að teikna upp aðgerðir.